Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
19.11.2010 | 07:45
Margir telja að gera þurfi grundvallarbreytingar á stjórnarfarinu (#7473)
Undanfarna daga hef ég kynnt mig sem frambjóðanda á stjórnlagaþing #7473 og gert grein fyrir því stefnumáli mínu að við skiljum framkvæmdavaldið frá löggjafarvaldinu að Amerískri, Franskri, Finnskri o.fl. landa fyrirmynd.
Mjög margir, ég held meiri hlutinn af þeim sem tekur afstöðu, telur þörf á grundvallar breytingum og finnst áhugavert að þessi leið sé skoðuð. Þetta hefur gert kynningarstarfið ánægjulegt og aukið tiltrú mína á samlöndunum.
Það eru svo augljósir gallar á stjórnarfarinu. Það sést í glímu okkar unga lýðveldis frá stofnun þess. Það nægir að nefna glímu við verðbólgu, og svo við afleiðingar hrunsins. Hægagangur og ómarkviss vinnubrögð. Við þurfum skarpara stjórnarfar. Forseti sem er höfuð framkvæmdavaldsins, tilnefnir ráðherra og leiðir ríkisstjórn, kostinn af > 50% íbúanna hefur skýrt umboð til framkvæmda.
Það ber að velja frambjóðendur eftir því hvaða afstöðu þeir hafa til aðal verkefnisins við endurskoðun stjórnarskránnar, sem er að marka stjórnarfar fyrir Ísland framtíðarinnar.
12.11.2010 | 21:57
Stjórnarfar landa - Hvað hentar Íslandi best?
Það eru fleiri lönd sem hafa forsetaræði en þau sem hafa þingræði. Sjá yfirlit hér
Þar sem er forsetaræði er forsetinn höfuð framkvæmdavaldsins, sjálfstæður gagnvart löggjafarvaldinu.
Þar sem er þingræði er forsætisráðherra höfuð framkvæmdavaldsins og líka leiðtogi löggjafarvaldsins. Í þessum löndum er gjarnan líka forseti sem hefur táknrænt hlutverk sem þjóðhöfðingi.
Hjá okkur hefur þingræðið því miður hefur ekki komið vel út. Stjórnarfarið hefur verð afar slappt svo sem sést á því sem drifið hefur á daga okkar litla unga lýðveldis:
1. Áratugi tók að kveða niður óðaverðbólgu, sem er samt einfalt mál ef hægt er að taka af skarið þegar það á við.
2. Helmingaskipta stjórnir, með mikilli spillingu, hafa viðgengist lengst af. Það kemst síður að þar sem valdþættirnir eru aðskildir.
3. Þegar loks voru tekin skref inn í samkeppnisumhverfi með EES, láðist að ganga vel frá hnútunum varðandi umgjörð og eftirlit, þannig að upp kom fákeppni á ýmsum sviðum og klíkuviðskipti.
Viðskiptahringar eignuðust stóran hluta fjölmiðlanna og gagnrýni skorti á það sem var í gangi.
Bankakerfi þandist út yfir það sem hæfði landinu, án nægilega sterks eftirlits og stjórnsýslu, sem gekk það langt að það setti landið á hausinn.
Þingræðis fyrirkomulagið hentar okkur sem sagt alls ekki vel.
Forsetaræði er skarpara stjórnarfara. Aðskilnaður valdsþátta leiðir til opinna skoðanaskipta og umræðu á jafnréttisgrunni valdþáttanna. Klíkuskapur verður erfiðari.
Það er kominn tími til að taka til og koma á klárri þrískiptingu valda með landskjörinn forseti í brúnn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.11.2010 kl. 07:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2010 | 13:36
Orðið "forsetaræði"
Þegar hlutirnir eru einfaldaðir þá getur verið stutt í misskilninginn. Orðið forsetaræði er þannig orð. Það gæti einhver haldið að meiningin með því sé að það verði einhver einræðisherra sem tekur við en svo er alls ekki. Það er áfram lýðræði og þingið setur lögin. Þingið þarf einnig að samþykkja ráðherralistann sem nýr forseti leggur fram, hæstaréttardómara og öll lög. Forsetinn getur lagt fram lagafrumvarp, en hann getur ekki samþykkt það. Hann getur hafnað lögum, en bara tímabundið og aukinn meirihluti þingmanna getur náð þeim í gegn.
Bara svo þetta sé á hreinu, við erum ekki að tala um einræðisherra, heldur forseta valinn af fólkinu til að stjórna um afmakaðan tíma í umboði þess og á grunvelli stefnu sem hann hefur lagt fram í sinni kosninga baráttu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2010 | 13:42
Trúmálin og stjórnarskráin
Faðir minn var organisti í Hábæjarkirkju í Þykkvabæ og mér er hlýtt til þjóðkirkjunnar.
Ég vinn m.a. með fólki frá Viet nam sem hefur ekki Lúterstrú.Ég skil sjónarmið fólks sem vill jafnrétti meðal trúarbragða í okkar landi.
Þess vegna tel ég að við eigum að sleppa afstöðu til trúarbragða í stjórnarskránni og láta hana ráðast með öðrum hætti. Trú er trú og fólk hefur mismunandi trú og sumir litla sem enga. Það er tímaskekkja að hafa ákvæði um trú í stjórnarskrám.
Sameinum forsetaembættið embætti forsætisráðherra. Köllum nýtt embætti forseta. Það verður alvöru forseti sem fer með framkvæmdavaldið. Hann getur lagt fyrir þingið lög og synjað lögum frá þinginu með vissum skilyrðum. Lítil þjóð í stóru landi þarf að haga málum sínum vel. Þetta snýst ekki um sparnað heldur að þjóðin geti kosið sér "forstjóra", en ekki að stjórnmálaflokkar ráði "í reykfylltum bakherbergjum" stjórana úr sínum hópi. Það býður upp á klíkuskap og músarholu sjónarmið óháð hagsmunum og vilja þjóðarinnar sem að hluta er háð stjórnmálaflokkum sem vinnustöðum og samstarfinu þar. Forsetinn/forstjórinn valinn af þjóðinni ræður sér meðráðherra/framkvæmdastjóra óháð því hvort viðkomandi eru þingmenn. Úrvalið úr stærri hópi er meira. Stjórnkerfið verður með þessu straumlínulagað. Stefnuskrá forsetaframbjóðandans sem nær kjöri hlýtur að vera nokkuð skýr og hann hefur umboð til að vinna að sínum stefnumálum þegar hann hefur verið kjörinn. Getur ekki borið við málamiðlun í samsteypustjórn, en það er auðvelt að slá af stefnuskránni með það að yfirskyni. Það er skýrt hvar ábyrgðin liggur ef einn forseti er kosinn til að gegna framkvæmdavaldinu. Þingið temprar hann, því hann starfar eftir lögum o.fl. Með þessu verður stjórnkerfið skilvirkara, skýrara og innbyrðis rökræða verður líklegri.
Frambjóðandi til Stjórnlagaþings nr. 7473
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2010 | 11:01
Alvöru forsetaræði – Já takk.
Því miður eru verulegir gallar á stjórnskipulagi okkar litla lýðveldis. Staðan í stjórnmálum um þessar mundir sýnir þetta vel og sagan líka.
Vilmundur Gylfason opnaði augu margra fyrir því að hver er sinnar gæfu smiður einnig þegar kemur að stjórnskipun. Við getum sjálf ákveðið hvernig okkar málum er háttað. Hann benti á að í USA, Frakklandi og víðar er með ýmsum tilbrigðum sá háttur hafður á að kjósa forsætisráðherra, sem þá kallast forseti, í beinum kosningum og löggjafarþing í öðrum kosningum. Við þetta vinnst margt. Hjá okkur háttar þannig til að forystumenn ríkisstjórnar í hvert sinn geta keyrt mál áfram í gegnum ríkisstjórn og Alþingi með flokks aga. Í sumum tilvikum er aginn góður og þá er stutt í fáræði og einræði. Gallinn er m.a. sá að það skortir eðlilega rökræðu sjálfstæðra aðila, sem takast á um framgang mála. Hér hefur það margoft gerst að í flokksherbergi stjórnarflokks komi formaðurinn í gegn stefnu, sem margir eru hundóánægðir með og e.t.v. ekki raunverulegur meirihluti á þingi fyrir. Skortir þá eðlilega góða umræðu, meira bera á átökum í anda íþróttanna, sem bæði er pínlegt fyrir þingið og skaðlegt fyrir þjóðina. Spillingin er stutt undan. Það má ekki styggja suma í kunningja þjóðfélaginu. Framkvæmdahliðin er stundum á villigötum sem von er þegar framkvæmdavaldið er valið úr fámennum hópi af fámennum hópi þingmanna og innbyggt aðhald bæklað. Með því að kjósa forsætisráðherra í beinum kosningum velst í starfið persóna sem talin er heppileg m.t.t. persónueinkenna og stefnu. Forsetinn getur valið með sér framúrskarandi ráðherra fyrir hvert ráðuneyti. Hann er ekki formaður stjórnmálaflokks þó hann styðjast e.t.v. við einhvern flokk. Forsetinn verður að koma stórum málum gegnum þingið og því þarf að rökræða málin af sjálfstæðum aðilum og einungis þau mál sem báðir aðilar þ.e. framkvæmdavald og löggjafarvald vilja og sætta sig við komast áfram. Framkvæmdavaldið verður faglegra og hlutverkið skýrara. Hluti af þessu er að leggja núverandi forsetaembætti niður. Fyrir fámenna þjóð í góðu landi, en stóru og fremur harðbýlu, er mikilvægt að haga málum sínum vel til að hafa það jafn gott og aðrar þjóðir. Núverandi stjórnskipan er ekki nógu öflug, betri stendur til boða.Það er því mikilvægt fyrir okkur að staðið verði vel að stjórnlagaþingi til að taka á þessum málum o.fl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.11.2010 kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 20:52
Tómataræktun norðurundir heimskautsbaug
Þessa dagana er þrýst á um niðurgreiðslur rafmagns fyrir garðyrkjubændur til að auðvelda ræktun tómata í skammdeginu hér norðurundir heimskautsbaug. Ég segi eins og Jón Baldvin, þegar Bryndís varð fegurðardrottning "sveijattan". Við þetta er margt að athuga og er hér tæpt á nokkrum atriðum.
Til að rækta tómata þarf hið augljósa, mikið ljós. Öflugasti ljósgjafinn er sólin og af hnattrænum ástæðum skín hún lengur og betur við miðbaug en hér upp við heimskautsbaug. Þetta er sama sólin sem skín hér og syðra og þegar gróður jarðarinnar er annarsvegar þá er í rauninni ekkert sem kemur í stað sólarinnar góðu. Að vísu má nota rafmagn til að líkja eftir sólarljósi. En rafmagnið kostar talsvert í framleiðslu og orkuframleiðslu er takmörk sett m.a. af umhverfisástæðum. Svo veit ég ekki hvort rafljósið geri alveg sama gagn og sólarljósið varðandi hollustu, en það er annað mál.
Hér ber að athuga að það er nóg að gera fyrir gott rafmagn. Nokkrir vilja fá það til álbræðslu. Útflutningur þess skapar gjaldeyri mun meiri en minni tómata innflutningur sparar. Einhverjir vilja koma upp hér gagnaverum, nýta umhverfisvænt rafmagnið og ekki-hitann okkar, til að spara kælingu. Svo er það að það er ekki endalaust hægt að virkja, þó sem betur fer sé talsvert eftir af virkjunarkostum enn. Það er bara bull að við verðum að auka raflýsta ræktun tómata og annars grænmetis til að spara gjaldeyri. Við spörum minni gjaldeyri en við fáum með ofangreindum nýtingarkostum. Rafmagn sem notað er til vetrarræktunar grænmetis á ekki að niðurgreiða. Þeir sem vilja endilega streitast við hana verða bara að sætta sig við raunkostnað vþa. það er næg þörf fyrir rafmagnið. Það kostar að framleiða það og koma því á notkunarstað. Það þarf í öllu falli að vera hagkvæmt að nota rafmagn án þess að peningar skattgreiðenda komi til. Skattgreiðendur eru ekki allir ríkir. Það á ekki að líta á þá sem einhvern óræðan hóp sem hægt er að tuddast endalaust á. Flestir skattgreiðendur eru venjulegt fólk sem hefur ekki of mikið milli handanna, síst núna í kreppunni. Ódýrasti og umhverfisvænsti virkjunarkosturinn er að niðurgreiða ekki rafmagnið til vetrarræktunar grænmetis og nota það á öðrum sviðum. Það á að leyfa náttúrulegum kostum á hverjum stað að ráða ferðinni að talsverðu leyti. Rækta tómata o.fl. þar sem sólin skín með umhverfisvænum hætti sunnar á hnettinum og hafa gagnaver og ýmsa orkufreka starfssemi þar sem hagkvæmt er að virkja á umhverfisvænan hátt, án útblásturs lofttegunda t.d. hér hjá okkur. Við verðum að hætta að láta bændur og fleiri bulla endalaust í okkur. Þeir eru ekkert betri en við almenningur til að móta sína starfsemi eftir þörfum og aðstæðum. Þeir eiga engan heilagan rétt til niðurgreiðslna og tollaverndar. Það á að gera það sem er hagkvæmt og eftirspurn er eftir, en sleppa hinu. Líka bændur. Við hér stundum dýrasta landbúnað í heimi út af svona bulli. Það þarf að draga úr honum en ekki bæta endalaust í. Ef fram heldur sem horfir heimtar einhver að við ræktum líka appelsínur, epli, banana o.fl. í raflýstum upphituðum gróðurhúsum allt árið um kring. Þetta er bull og allt í lagi að gera sér grein fyrir því.Ég sé ekki mikinn mun á því fyrir menningu landsins að menn vinni í raflýstu gróðurhúsi eða í álbræðslu eða gagnaveri. Þetta er allt vinna og það er eins gott ef sú vinna er að gagni fyrir okkur, land og þjóð. Þannig vegnar okkur betur sem þjóð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við íslendingar höfum mikla hagsmuni af fullri ESB aðild. Hér eru nokkrar mikilvægar ástæður.
Krónan okkar er lítt nothæf, sumir segja dauð. Evran færir okkur lægri vexti, minni viðskiptakostnað, meiri fjárfestingar útlendinga í fjárfestingartækifærum á Íslandi, lægri sem enga verðbólgu og losa okkur smám saman við verðtrygginguna. Evran er sem sagt traustur grunnur að byggja (nýja Ísland) á.
Við höfum sjávarútveginn og orkuna en við verðum að hafa fleira til að geta vaxið og hafa tryggar undirstöður. Það var gríðarlegt áfall þegar bankarnir hrundu. Vel menntað öflugt fólk missti vinnuna og landið okkar miklar tekjur á sama tíma og ofurþungar birgðar lögðust á þjóðina. Við verðum að byggja upp fjármálastarfsemi á ný og meira af öflugum fyrirtækjum s.s. Össur og Marel eru. Það getum við mun hraðar og betur innan ESB en utan.
Sjávarauðlindin er svo til fullnýtt. Veiðistjórnun og kvótakerfi megna ekki að tryggja og auka auðlindina. Þannig hefur aukningu t.d. þorskstofnsins ekki gengið eftir. Auðlindin er síkvik og það gæti alveg eins orðið verulegur samdráttur í veiðum í framtíðinni sbr. Nýfundnaland: Ekki víst að hún haldi sér eða aukist - annað áfall? Það þarf fleiri stoðir en sjávarútveg og orku.
Orkan í fallvötnum og iðrum jarðar er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur. Vegna hennar fáum við rafmagn á ágætu verði, upphitun húsa á mjög góðu verði m.v. ef hita þarf með olíu eða kolum. Áfram má virkja og bæta við orkufreka starfsemi, s.s. álvinnslu og fl. Það er þó hyggilegt að fara sér hægt. Ekki gott að hafa öll eggin í sömu körfunni. Hvað myndi gerast ef t.d. nýr málmur, eða efnablanda myndi leysa álið af hólmi, væri sterk en samt létt og ódýr? Nýtt áfall? - Við þurfum fleiri stoðir en sjávarútveg og orkuna.
Landbúnaðurinn okkar er of kostnaðarsamur hér í norðrinu. Matvælaöryggi stenst ekki sem rök. Landbúnaðurinn þarf að flytja inn ýmislegt til að vera starfhæfur. Með ESB aðild fáum við lægra matvælaverð og minni tilkostnaði til landbúnaðarins. Kostnaður okkar vegna landbúnaðarins mun vera nálægt 15 milljörðum króna árlega. Það er of dýrt sérstaklega eins og staðan er nú og verður á næstu árum. Það er mikilvægt að fullfrískt vel menntað fólk, sem við erum almennt, sé ekki baggi á samborgurunum, heldur leggi fram, þ.e. vinni í raun fyrir sér og sínum. Það er út í hött að til frambúðar eigi einhverjir fullfrískir til sjávar að vinna fyrir öðrum fullfrískum til sveita. Það á ekki að falsa kerfið og það á ekki að láta sem þetta sé eðlilegt. Til þess er tilveran of stutt og lífið of dýrmætt. Ef stuðningurinn við landbúnaðinn er 15 mja. kr. á ári þarf ansi marga til að vinna fyrir þeim sem hafa atvinnu af landbúnainum. Með ESB mun verð hvíta kjötsins lækka mjög og verða um 200-300 kr./kg. og annað kjöt þarf að fylgja eða sala þess minnkar. Það fækkar að vísu störfum í landbúnaði og tengdum greinum, en fyrir það sem sparast má byggja upp arðbær ný störf. Landbúnaðurinn okkar er í spennitreyju því hann nærist á styrkjum og höftum. Það verður að losa um höftin og fá hagkvæmni í staðinn. Það þarf auðvitað að hjálpa þeim sem verða fyrir barðinu á breytingunum að komast yfir þær. Sá tilkostnaður sem af því hlýst er mjög lítill í samanburði við 15 mja. kr. á ári.
Þegar við erum komin í ESB og með Evruna verður ekki svo erfitt að byggja aftur upp alþjóðlega fjármálastarfsemi og ný arðbær fyrirtæki. Við fáum erlent áhættufjármagn, þ.e. útlendingar munu byggja upp og kaupa sig inn í okkar (íslensku) fyrirtæki og uppbyggingin því verða hraðari og öruggari. Við munu fá meiri tiltrú á erlendum vettvangi því fólk í Evrópu og viðar mun sjá að við höfum tekið vel á okkar málum og lagt góðan grunn að betri atvinnustarfsemi og með Evruna sem grunn.
Það verður að hafa það þó við höfum formlega ekki síðasta orðið um hversu mikið má veiða á hverju ári og þó við þurfum að hafa samráð við Evrópuþjóðirnar um veiðarnar. Í staðinn fáum við mun víðfemara og tryggara atvinnulíf. Við munum eiga auðveldar með að koma því svaðo fyrir að unga fólkið sem menntar sig sem betur fer mjög vel, bæði hér heima og erlendis og hefur mikla getu til að stjórna og reka stór alþjóðleg fyrirtæki muni fá tækifæri til þess, þ.e. umgjörðin stuðlar að því. Annars munu fleiri og fleiri þeirra ekki snúa heim að námi loknu og hverfa fósturjarðar ströndum.
Það er mannlegt eðli að vera varkár varðandi breytingar. Sú breyting að ganga í ESB er þess eðlis að það er auðvelt að tortryggja að hún sé til bóta af því maður sér það sem er en síður það sem kemur í staðinn. Það er mikilvægt að skilja þetta og láti í sér heyra. Áfram Nýja Ísland!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.2.2009 kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)