ESB og landsfundur: Er ekki rétt að stinga hausnum í sandinn líka, svona til öryggis?

Nú stendur fyrir dyrum landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Tillaga um að umsókn Íslands um aðild að ESB verði dregin til baka var á síðasta landsfundi lögð fram og samþykkt og nú þykir vafalaust einhverjum rétt að ítreka þessa afstöðu svona til öryggis.

Fylgismenn umsóknar um aðild meðal sjálfstæðismanna eru margir og þeim þykir þessi afstaða auðvitað hroðaleg. Einhverra hluta vegna endurspeglar landsfundurinn ekki sjónarmið almennra flokksmanna vel í þessu máli og reyndar fleiri málum ef út í það er farið. Sennileg skýringin er að við þátttöku í starfi flokksins verði einhvers konar mótun og síun. Boðuð tillaga um að allir flokksbundnir sem áhuga hafa geti setið landsfund virðist því mikilvæg.

Nú er það svo að meirihluti landsmanna vill að ESB umsóknarferlið fái að ganga sína leið til enda, fólk fái að sjá hvernig samningur fellur að hagsmunum Íslendinga og kjósa svo um niðurstöðuna. Um helmingur sjálfstæðismanna vill þetta líka. Andstæðingar aðildar á landsfundi verða að átta sig á því mikla tjóni sem þeir valda með því að beita afli gegn „minnihlutanum“ sem túlkar í raun sjónarmið meirihluta Íslendinga.

Það tjón sem hér er átt við er m.a. þetta:
• Ef það leiðir að lokum til þess að umsóknin verður dregin til baka getur langur tími lítið þar til við fáum endanlega að vita hvernig Evrópusambandið kemur til móts við þarfir Íslendinga og hvað við þurfum að gera til að uppfylla inngönguskilmála. Þangað til það kemst á hreint og landsmenn fá að kjósa um samning munu umræður og átök um málið trufla þjóðfélagsumræðuna. Það þarf að leiða málið til lykta.
• Ef það er eindregin afstaða xD að draga berir umsóknina til baka þrengir það möguleika Sjálfstæðisflokksins að komast í ríkisstjórn. Það kann að seinka því að til komi öflug atvinnusköpun sem gæti dragið úr atvinnuleysi og bætt hag landsmanna. Lífskjör margra eru lakari á meðan.
• Fylgismenn umsóknar meðal sjálfstæðismanna kjósa margir aðra flokka ef afstaða Sjálfstæðisflokksins er eindregin gegn aðild. Flokkurinn er aflminni fyrir bragðið.

Nú eru hörðustu andstæðingar umsóknarinnar bændur og útvegsmenn. Báðar stéttirnar hugsa stíft um sinn hag og vilja að umsóknin verði dregin til baka. Samtök atvinnulífsins, ASÍ o.fl. fylgja hins vegar umsókninni. Við verðum að hlúa að atvinnugreinum framtíðarinnar, skapa jarðveg fyrir vel launuð góð störf fyrir komandi kynslóðir á vinnumarkaðinn á næstu árum. Það verður ekki gert í landbúnaði, sjávarauðlindin mun ekki vaxa með okkur, það fækkar góðum orku virkjunarkostum. Framtíðin byggist m.a. hátækniiðnaði, ferðaþjónustu oþh.
Niðurstaðan í stórum stjórnmálaflokki hlýtur að vera málamiðlun milli hagsmunahópa þegar í raun er tiltölulega jafnt í hópum með og á móti, jafnvel þó slagsíða meðal landsfundarfulltrúa gefi kost á að beita afli atkvæða. Stétt með stétt var eitt sinn sagt.

Þess vegna ætti landsfundurinn að rýmka umboð forystunnar í málinu. Það ætti líka að stuðla að því að flokkurinn vinni landinu gagn með því að nýta umsóknartímann vel til að ræða kosti og galla aðildar og skilgreina hvernig takast mætti á við breytingar sem myndu fylgja aðild svo sem varðandi landbúnaðinn. Þá þarf að skoða tækifæri sem aðild kunna að fylgja. Umræðan þarf að var mikil, góð og upplýsandi til að styðja við bakið á samninganefndinni og til að landsmenn þekki málið sem best þegar þeir á endanum kjósa um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Treystum beinu lýðræði í þessu máli og hlúum að því, með því að stuðla að því að þeir sem kjósa að lokum verði vel upplýstir.

Eða eigum við frekar að reyna að knýja fram að umsóknin verði dregin til baka og væri þá ekki rétt að stinga hausnum í sandinn, svona til öryggis?

Viðskiptafræðingur, smá atvinnurekandi, neytandi og bóndasonur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Í Silfrinu talaði einn um að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að ná til breiðari hóps yngri kjósenda með því að breyta áherslum og mýkjast í esb stefnunni.

Þá er það spurning: Hvort er heiðarlegra að bjóða fram ákveðna stefnu sem kjósendur geta stutt eða hafnað, eða að setja fram eitthvað hálfkák til að "ná til breiðari hóps"?

Ef stefnan er að standa utan við esb á að boða það og annað ekki.

Legg til þessa leið: 
Tillaga til þingsályktunar borin upp um að draga umsóknina til baka. Í henni verði ákvæði um að verði hún samþykkt á Alþingi skuli sú niðurstaða borin undir þjóðaratkvæði. Þá fengi þjóðin loksins að kjósa um þetta mál, sem er löngu tímabært.


Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á esb eftir að umsóknin var lögð inn og enn meiri breytinga sem eru yfirvofandi, væri það einmitt eins og að stinga hausnum í sandinn að halda bara áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Haraldur Hansson, 15.11.2011 kl. 12:33

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég las grein þína í Morgunblaðinu. Það sem ég sárnar þ.e. ef þú ert sjálfstæðismaður að segja þetta .

 Þetta er eina hálmstrá sem við höfum en það er að draga þessa ESB umsókn til baka. Mér finnst það að ef það eru margir sjálfstæðismenn sem vilja ESB þá eigi þeir að ganga í annan flokk heldur en að reyna að hafa áhrif á væntanlega stefnu flokksins.

Sjálfstæði er eitt orð sem við verðum að hafa í huga og það að gá hvað við getum fengið frá ESB fyrir landið okkar er eins og að hafa land eða eign á sölu bara til þess að gá hvað hægt sé að fá.

Valdimar Samúelsson, 15.11.2011 kl. 13:14

3 Smámynd: Guðjón Sigurbjartsson

Sjálfstæði er afstætt hugtak. T.d. þegar við vorum með Amerískan her, erum í hernaðarbandalagi oþh. Við þurfum að vera í bandalögum við okkur vinveittar nágrannaþjóðir. Annað er blekking.

Guðjón Sigurbjartsson, 15.11.2011 kl. 19:50

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Ef þú ert að jafna þátttöku í NATO við inngöngu í ESB hefur þú heldur betur svikist um að lesa heima.

Ólíkt ESB þá krefst Nató þess ekki að ríki framselji löggjafarvald, framkvæmdavald og æðsta dómsvald í hendur yfirþjóðlegrar stjórnar. Enda eru þetta grunnstoðir sjálfstæðisins. Svo bætist við fullveldi í peningamálum og í pípunum er núna framsal á fjárlagavaldi með tilheyrandi heimild til skattlagningar.

"Vinveittar þjóðir" er afstætt hugtak. Ekki viljum við "vinsemd" að hætti Breta sem birtist í óbilgjörnum kröfum og hryðjuverkalögum. Eða vináttu Barrosos sem studdi Breta til að tryggja sér endurkjör. Eða "vináttu" Svía eins og hún birtist eftir hrun.

Nokkur nýleg dæmi um "sjálfstæði" þjóða innan ESB:

Slóvakar eru svo "sjálfstæðir" að þeir neyddust til að samþykkja ábyrgð á björgunarpakka, sem þeir hafa engin ráð á, þótt það þýddi fall ríkisstjórnarinnar.

Danir eru svo "sjálfstæðir" að þeir verða að hætta við landamæraeftirlit eftir að Merkel og Barroso reiddust og flögguðu Schengen plaggi framan í þá.

Grikkir eru svo "sjálfstæðir" að þeir biðu í þrjá daga með að hætta við að leyfa þjóðinni að kjósa um framtíð sína og velferð. Svo féll stjórnin og dyramotta frá Brussel var sett sem landstjóri.

Finnar eru svo "sjálfstæðir" að þeir fengu ekki að ráða neinu um ábyrgð sína á björgunarpakkanum og hættu við kröfu um tryggingar (sem Grikkir voru samt tilbúnir að ræða).

Ítalir eru svo "sjálfstæðir" að niðurskurðarfrumvarpið sem á endanum felldi Berlusconi var samið í Frankfurt og Brussel án þess að einn einast lýðræðislega kjörinn þingmaður Ítala kæmi þar nærri. Aftur var dyramotta frá Brussel sett sem landstjóri.

Skotar eru svo "sjálfstæðir" að þeir teljast ekki lengur strandríki og kommúnisti frá Grikklandi sér um að semja um makrílveiðar fyrir þeirra hönd.

Sjálfstæði kann að vera afstætt hugtak, en hvernig sem það er túlkað er það ekki að finna í aðild að Evrópusambandinu. Aldeilis ekki. Verst af öllu er þó hvernig lýðræðið er sniðgengið aftur og aftur. Það er hættulegur leikur.

Haraldur Hansson, 15.11.2011 kl. 20:39

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Guðjón. Hvað meinar þú að þurfa að vera í bandalagi við aðrar þjóðir. Erum við ekki í allskonar bandalögum við aðrar þjóðir og í bandalagi við UN sem aftur eru í bandalagi við aðrar þjóðir. Við þurfum að vera sjálfstæðir sem þjóð og ekkert annað. Ég eiginlega skil ekki þessa vitleysu í þér og ykkur aðildarsinnum. Hvað þá að skilja þá sem eru ekki aðildarsinnar en vilja athuga hvað þeir geta fengin fyrir sinn snúð.

Valdimar Samúelsson, 15.11.2011 kl. 22:44

6 Smámynd: Guðjón Sigurbjartsson

Ágæti Haraldur

Það væri hægt að lista upp hversu sjálfstæðir eða ekki við íslendingar erum. Íslendingar eru svo sjálfstæðir að

- við þurfum að innleiða skilyrðislaust og án þess að hafa komið að borðinu við að semja, tilskipanir ESB í um 60% af því sem eru heildar tilskipanir þess.

- við vorum komin í þá aðstöðu utan ESB að þurfa tilsjón AGS við að leiða okkur í gegnum tímabil þar sem okkur skorti lánstraust annarra þjóða nema að við féllumst á tilsjón þeirra.

- við erum með ónothæfan gjaldmiðil sem er í höftum og losnar seint úr þeim....

bara svona til að nefna nokkur atriði.

Það þarfa allar þjóðir að eiga samstarf við aðrar þjóðir. Spurningin er bara hversu formlegt það er. Og, þeim mun minna samstarf þeim mun ver vegnar þjóðum.

Guðjón Sigurbjartsson, 16.11.2011 kl. 20:27

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka þér skoðanaskiptin Guðjón.

Um þessa þrjá punkta sem þú nefnir:

#1 - alveg hárrétt hjá þér. Við þurfum ekki að taka upp nálægt því 60% af löggjörningum ESB og þeir sem teknir eru upp eru hvorki gerðir það skilyrðislaust né án þess að koma að borðinu.  
Þriggja þrepa afgreiðslan á vettvangi EFTA og sameiginlegu EES nefndarinn - áður en reglugerðir verða að lögum - sér til þess. Þetta er sterkari aðkoma heldur en aðild gæfi okkur, auk þess sem margir stórir málaflokkar standa utan málasvið EES.

#2 - líka rétt, enda varð hér meiriháttar hrun. Núna eru nokkur ESB ríki, sem nota evru sem gjaldmiðil, í prógrammi hjá AGS og samt eru þau búin að tapa öllu lánstrausti, eins og reyndar fleiri evruríki. Grikkland, Ítalía, Portúgal og Íraland standa verst en Slóvenía, Spánn og Belgía nálgast hættusvæðið.

#3 - rangt. Gjaldmiðill sjálfstæðrar þjóðar getur aldrei orðið ónothæfur. Kannski illa stýrt, en aldrei ónýtur. Og ekki má klína verðtryggingunni á krónuna, það var pólitísk hrossalækning sem átti að vera tímabundin en lifir enn.
Ísland var ein fámennasta og fátækasta þjóð Evrópu en stökk frá örbyrgð til allsnægta á nokkrum áratugum. Það er ekki hægt nema með gjaldmiðil sjálfstæðrar fullvalda þjóðar. Berðu bara saman þróunina á Íslandi og Möltu frá sjálfstæði til dagsins í dag.


Innganga í ESB er ekki bara "samstarf við aðrar þjóðir" og enn síður spurning um "hversu formlegt" það er. Þetta er miklu, miklu, miklu stærra mál en það.

Haraldur Hansson, 17.11.2011 kl. 01:00

8 Smámynd: Guðjón Sigurbjartsson

Haraldur þú ert eldheitur ESB andstæðingur.

Held að við viljum báðir þjóðinni okkar vel en höfum ekki sömu skoðun á því hvaða leið er best fyrir okkur.

Nokkrir viðbótarkostir við ESB leiðina:

1. Það má líkja sameiginlega starfinu í Brussell við öflugan hugsana tank. Fjöldi fólks með mismunandi reynslu og þekkingu tekst á við spurningar um hvernig á að haga hinum ýmsu verkefnum sem allar þjóðir eða því sem næst þurfa að takast á við. Þetta er mikið öflugra en ef fámenn þjóð með heldur fáa sérfærðinga er að baxa upp á sitt einsdæmi, jafnvel þó við reynum að hirða það besta frá nágrannaþjóðunum fyrir lítið. Við erum þá alltaf á eftir. Oft talað um ca. 10 árum á eftir nágrannaþjóðunum.

2. Fámenni og skyldleiki há okkur. Dæmi: Ef fjármálaeftirlitið sem fylgjast átti með bönkunum yfir hrun en náði ekki árangri m.a. vegna þess að það gekk ekki vel að fá skilning til að eyða nægilega miklu fé í það, skyldleiki og skortur á nægilega öflugu hæfileikafólki. Ef bankar eiga að fá að starfa á EES svæðinu væri gott að hafa miðlægt bankaeftirlit t.d. frá Seðlabanka Evrópu. Það gæti verð gríðarlega öflug stofnun. Sérðu muninn?

Það má sjá mjög margt gott í stóru samevrópsku stjórnkerfi.

Það er óþarfi að hræðast það. Ef það virkar illa þá sjálfkrafa hætta þjóðir að vera með í því. Það er óþarfi að mikkla þetta fyrir sér, þetta er ekki svona hættulegt eins og sumir virðast halda.

Guðjón Sigurbjartsson, 23.11.2011 kl. 21:50

9 Smámynd: Haraldur Hansson

Ég er alls ekki "eldheitur ESB andstæðingur" ég er bara á móti því að Ísland gangi þar inn, því þar eigum við ekki heima. Sjálfstæðið er okkar dýrmætasta auðlind.

Fyrir 3-4 árum var ég í raun hlutlaus gagnvart aðild Íslands að ESB, eins og gengur með þá sem ekki kynna sér hvað ESB í raun og veru er. Svo ákvað ég að sökkva mér í þetta upp á eigin spýtur og mynda mér eigin skoðun, óháð allri flokkspólitískri umræðu.

Mér sýnist þú vera þokkalega læs og skrifandi og kominn vel yfir fermingu. Mér finnst satt að segja pínlegt þegar slíkir menn trúa því að aðild að ESB sé um "samstarf við aðrar þjóðir" eða líki "samstarfinu í Brussel" við hugveitu! Ef svo væri þyrftum við ekki að afsala okkur löggjafarvaldi, æðsta dómsvaldi og formlegum yfirráðum yfir verðmætum auðlindum.

Ég legg til að þú kynnir þér ESB upp á eigin spýtur.

Ég legg til að þú lesir grunnsamninga Sambandsins, þeir eru til á íslensku á vef utanríkisráðuneytisins. Það er ekki eins mikið mál og virðist við fyrstu sýn.

Þá legg ég til að þú kynnir þér uppbyggingu sambandsins og valdastofnanir; hvar stefnan er mótuð, hverjir leggja fram fumvörp og hvernig lög öðlast gildi. Hvar völdin liggja.

Til viðbótar kannaðu hvernig lýðræði kemur við sögu! Í því sambandi bendi ég sérstaklega á 16. gr. Maastricht, eins og hún er eftir breytinguna sem gerð var með Lissabon sáttmálanum og hvaða áhrif það hefði á stöðu Íslands þegar hún tekur gildi í nóvember 2014.

Ég ætla ekki að stafa þetta ofan í þig, þú þarft að kynna þér þetta sjálfur. Það er smá vinna, en þú sérð ekki eftir því. Það er augljóst að þér veitir ekki af.

----- ----- -----

Og í lokin, varðandi það sem þú segir um FME. Það er rétt að eftirlitið brást. En hefðum við staðið betur með evrópskt eftirlit? Írland er um 14 sinnum fjölmennara ríki, en þar endaði allt bankakerfið í fangi ríkisins og Anglo Irish fór í raun á hausinn.

Á meginlandinu hafa bankar hrunið, allt frá Fortex í byrjun hruns til Dexia núna síðast. Í Bretlandi er stærsti bankinn í öndunarvél og fjórir stærstu bankar Þýskalands og Frakklands eru í fallhættu. Þá er sjálfur Seðlabanki Evrópu orðinn bitbein í deilum Merkel og Sarkozys. Hvað hefðu þeir eytt miklu púðri í eftirlit á Íslandi?

Haraldur Hansson, 26.11.2011 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband