Um 30.000 Íslendingar eru á vanskilaskrá og mörg heimili hafa lítið handa á milli. Ef samkeppnisverndin yrði felld niður myndi það auka ráðstöfunartekjur meðalheimilis um allt að 30-50 þúsund kr. á mánuði. Fjölmörg heimili munar verulega um þá upphæð.
Matvælaframleiðsla á Íslandi þarf að laga sig að aðstæðum á Íslandi og umheimsins sem við lifum í. Við erum að bisa við að framleiða hér á norðlægri eyju ýmislegt sem betra væri að flytja inn og þá helst frá þróunarlöndum sem vantar verkefni.
Hvað eru nágrannalöndin að gera?
Innan Evrópusambandsins er opinn markaður með matvæli sem stuðlar að hagkvæmni og lægra verði1). ESB er stærsti innflytjandi matvæla á heimsvísu. Sambandið hjálpar þróunarlöndum að selja vörur sína inn á ESB svæðið með því að veita þeim forgang að markaðinum. Árlega er matvara að verðmæti um 10.000 miljarðar (60 milljarðar) flutt inn á ESB svæðið frá þróunarlöndum. Þetta er meira en fimm stórir innflytjendur matvæla á heimsvísu gera samanlagt, þ.e. USA, Japan, Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland. Opinberir styrkir til landbúnaðar eru um 1% af opinberum útgjöldum innan ESB. Hér á landi er opinber stuðningur við landbúnað um 3% eða þrefalt meiri en í ESB.
Styrkir ESB til dreifbýlisins eru tengdir landnotkun, sem veldur minni óhagkvæmni en okkar framleiðslutengdu styrkir gera.
Hvað þurfum við að gera?
Eins og fram kemur hinni ágætu McKinsey skýrslu2) þurfum við Íslendingar, ef við viljum ná lífskjörum nálægra þjóða og halda í við þær, að auka þjóðarframleiðsluna verulega og draga úr óhagkvæmni. Sú vinna sem hafin er á vegum svokallaðs Samráðsvettvangs lofar góðu3).
Við þurfum að fella niður samkeppnisvernd landbúnaðarins með því að opna á innflutning án tolla og vörugjalda.
Við þurfum að hjálpa þróunarlöndum til við að auka matvælaframleiðslu sína og flytja út, meðal annars til Íslands. Veita þeim forgangsaðgang að okkar markaði þegar við opnum.
Breyta þarf styrkjunum til landbúnaðarins yfir í landnýtingartengda styrki.
Hvað er vandamálið?
Við niðurfellingu samkeppnisverndar landbúnaðarins verður samdráttur og fækkun starfa bæði hjá búum og úrvinnslugreinum. Mestur verður samdrátturinn í kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu og þar á eftir mjólkinni. Lambakjötið héldi sínu að mestu. Gera má ráð fyrir að nokkur hundruð manns missi vinnuna nema eitthvað verði að gert. Það hversu margir fer eftir viðbrögðum, hæfni og útsjónarsemi þeirra sem fyrir verða og mótvægisaðgerðum samfélagsins.
Fjölmörg verðug verkefni bíða vinnufúsra handa. Réttlætanlegt er að verja hluta þeirra 15 milljarða króna sem sparast við niðurfellingu samkeppnisverndarinnar í verðug verkefni sem skapa störf fyrir þá sem missa þegar hún hverfur.
Hjálpum þeim til betra lífs
Í Afríku og víðar um heiminn eru vanþróuð svæði þar sem matur er af skornum skammti og efnahagslífið vanþróað. Til ársins 2050 þarf matvælaframleiðsla á heimsvísu að tvöfaldast til að fæða íbúafjöldann sem þá verður um 9 miljarðar. Hentugast er að framleiða matvæli þar sem þau skortir, aðstæður eru góðar og minnstu þarf að kosta til. Svo háttar víða til í sólríkum heitum löndum.
Við þurfum að veita þróunarlöndum forgangsaðgang að matvælamörkuðum okkar og hjálpa þeim við að auka og bæta matvælaframleiðsluna og flytja hluta hennar út. Við þetta skapast mörg störf. Setja þarf af stað matvælaþróunarverkefni, ráða til þess fólk sem býr yfir þekkingu og reynslu, meðal annars fólk sem losnar um við niðurfellingu samkeppnishaftanna. Bændur, fólk úr úrvinnslugreinum og fólk með þekkingu á þróunaraðstoð fengi vinnu við verðug verkefni. Hluti hópsins fengi undirbúning og þjálfun og myndi flytja tímabundið til valins þróunarsvæðis og hefjast handa. Heimamenn yrðu ráðnir til sem flestra verka og þeim kennd vinnubrögðin enda markmiðið að þeir tækju við rekstrinum.
Í þessi verðugu verkefni þyrfti að verja 3-5 miljörðum króna árlega, jafnvel meiru. Að hluta til væri verið að nýta fé sem sparast við niðurfellingu samkeppnisverndarinnar og að hluta til mætti færa til fjármagn sem varið er í þróunaraðstoð, ef það er talið nýtast betur.
Fleiri verkefni bíða vinnufúsra handa sem losnar um svo sem við ferðaþjónustu. Gera mætti sérstakt átak og styrkja uppbyggingu á því sviði, víða um land.
Að lokum
Umræðan um matvælaframleiðslu hér á landi ætti að snúast um hvernig við stöndum að breytingum, en ekki hvort við breytum. Það er óhjákvæmilegt og öllum fyrir bestu að vel sé staðið að málum.
Heimildir:
1) Landbúnaðarstefna ESB, http://europa.eu/pol/agr/flipbook/en/files/agriculture.pdf
2) Skýrsla McKinsey, http://www.stjornarrad.is/rikisstjorn/frettir/nr/494
3) Samráðsvettvangur, ýmis fróðleikurhttp://samradsvettvangur.is/
Höfundur er viðskiptafræðingur og bóndasonur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.