Háir vextir sýna hversu erfið og ómöguleg krónan er okkur.
Vextirnir eru allt of háir og munu ekki lækka niður í það sem gerist í samanburðarlöndunum með krónunni.
Verðtrygging er fylgifiskur.
Einnig ofur launahækkanir án innistæðu þar sem fólk er að reyna að næla sér í kaupmátt til þess m.a. að greiða of háa vexti, of háan matvælakostnað osfrv.
ES og Evran, það er málið.
Krónan ekki sjálfstætt vandamál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.4.2015 | 07:20
Útlensk matvæli og innlent kjaftæði
Eru erlend matvæli óheilnæmari en innlend? Tryggir innflutningsverndin fæðuöryggi? Færi allur hagur af tollfrjálsum innflutningi í vasa kaupmanna? Þessu og fleira í sama dúr er haldið fram af sumum talsmanna bænda. Gæti verið að þetta sé bull, jafnvel rógburður hagsmunahóps?
Meira um um málið hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2015 | 14:49
Fólkið vill kjósa
Nú hljóta allir flokkar að verða sammála því xD og xB voru búnir að lofa kosningum um máliið.
Vilja að þjóðin fái að kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2015 | 15:00
Bætum lífskjörin um 50%+
Árið 2013 vorum við í 21. sæti á lista Alþjóðabankans yfir þjóðarframleiðslu á mann (E: GDP pr. Capita) með um 5,6 m.kr á mann á ári. Hæst eru Mónakó, Liechtenstein og Lúxemborg með frá 20,2 m.kr til 13,7 m.kr. Svo kemur Noregur með 12,5 m.kr, rúmlega tvöfalt á við okkur! Danmörk og Svíþjóð eru með um 7,3 m.kr, um 50% hærra en við. BNA er með 6,5 m.kr og Þýskaland með 5,6 m.kr eins og Ísland. Þetta nægir Þýskalandi, 80 milljón manna samfélagi, sem er vel staðsett á meginlandi Evrópu. Landið er fjárhagslega öflugt og lífskjör góð. En Ísland þarf mun meira.
Til að hafa jafn góð lífskjör og fólk í Skandinavíu verðum við að hafa 20 til 30% meiri þjóðarframleiðslu á mann en þær þjóðir vegna þess að við erum óhagkvæm eining, mannfá í stóru, afskekktu, norðlægu landi. Hátt verðlag og óheyrilegur fjármagnskostnaður minnkar einnig það sem afgangs er. Til að ná Dönum og Svíum þurfum við þannig að auka þjóðarframleiðslu á mann um 50%+30% = 80% og allt að 100% meira til að ná Norðmönnum. Auk þess er verðlag lægra í Danmörku og Svíþjóð.
Sóknarfærin eru mörg. Við höfum alls ekki verið nægilega raunsæ og markviss undanfarna áratugi.
Framleiðni vinnuafls er 20% minni en í samanburðarlöndunum og fjárfesting í atvinnulífinu 8% minni. Skýringin er meðal annars mjög mikill fjármagnskostnaður sem dregur úr fjárfestingu og íþyngir einstaklingum en einnig þarf víða að bæta vinnubrögð.
Til að efla atvinnulífið þarf traustan alþjóðlega gjaldgengan gjaldmiðill sem kemur á stöðugleika og lækkar vexti. Besti kosturinn er, að sögn Seðlabankans og samkvæmt almennri skynsemi, evran, með fullri aðild að ESB. Fyrirtækin munu geta greitt hærri laun og fjármagnskostnaður heimila mun minnka um hundruð þúsunda á ári.
Aðildin færir okkur einnig að borði þar sem obbinn af framtíðarlögum og -reglum þjóðfélagsins verður mótaður.
Opna þarf á tollfrjálsan innflutning matvæla og minnka niðurgreiðslur til landbúnaðar um 2/3, niður í Evrópumeðaltal, hvort sem við göngum í ESB eða ekki. Við þetta aukast ráðstöfunartekjur heimila um hundruð þúsunda á ári.
Útlit er fyrir að okkar sjávarútvegi muni vegna vel innan ESB en til að meta það endanlega þarf að leiða aðildarsamningana til lykta.
Menntakerfið þarf að bæta. Unga fólkið kemur seinna út á vinnumarkaðinn og margir með slakari menntun en í samanburðarlöndunum. Stytta þarf grunn- og framhaldsskóla og bæta menntun á öllum skólastigum þannig að við fáum vel menntaða einstaklinga fyrr út á vinnumarkaðinn. Fleira mætti tiltaka en þetta eru aðalatriðin.
Hagvöxtur síðustu ára byggist á auknum ferðamannastraumi og makríl. Þetta hjálpar, en til að stórbæta lífskjörin þurfum við raunverulegar breytingar á grunnstoðum samfélagsins. Aðilar vinnumarkaðarins ættu í komandi kjarasamningum að draga ríkisstjórnina að borðinu og krefjast slíkra aðgerða en fara varlega í krónutöluhækkanir umfram það sem innistæða er fyrir.
Viðræðuslit við Evrópusambandið er ekki eitt af því sem við þurfum núna. Slíkt væri þvert á móti skemmdarverk gagnvart þjóðinni sem mun ef til kemur tefja lífskjarabatann um mörg ár. Núverandi ríkisstjórn væri þá eins konar slitastjórn Íslands því ef okkur tekst ekki að bæta lífskjörin verulega höldum við áfram að dragast aftur úr nágrannaþjóðunum og þá fjarar hratt undan okkar góða þjóðfélagi.
Höfundur er viðskiptafræðingur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2014 | 15:43
Laun lækna geta hækkað verulega
Læknar fara fram á 30% til 40% hækkun grunnlauna, að hluta til að ná upp því sem þeir hafa dregist aftur undanfarin ár. Ef þeir fá slíkar hækkanir og aðrar stéttir svo í framhaldinu, mun verðbólga því miður éta þær nær allar upp.
Læknar geta auðveldlega sótt betur launaða vinnu erlendis. Einungis um 20% læknanema í framhaldsnámi erlendis vilja koma heim til vinnu að námi loknu. Fjöldi íslenskra lækna starfar erlendis. Undirmönnun spítalanna eykur vinnuálag. Heilbrigðiskerfið er í stórhættu. Við þessu verður að bregðast.
Því miður getur landið okkar enn ekki boðið jafn góð kjör og þau lönd sem við berum okkur saman við vegna þess að þjóðarframleiðsla á mann er ekki næglega há. Sama hvað laun hækka mikið að krónutölu, raunlaun hækka ekki meira en hagkerfið skapar.
Árið 2013 vorum við í 21. sæti á lista Alþjóðabankans yfir þjóðarframleiðslu á mann (E: GDP pr. Capita) með um 5,6 m.kr. á mann á ári. Hæst eru Mónakó, Liechtenstein og Luxembourg með frá 20,2 m.kr. til 13,7 m.kr. Svo kemur Noregur er með 12,5 m.kr., rúmlega tvöfalt á við okkur! Danmörk og Svíþjóð eru með um 7,3 m.kr., um 50% hærra en við.
BNA er með 6,5 m.kr. og Þýskaland með 5,6 m.kr., sem er reyndar svipað og við. Þetta hins vegar nægir Þýskalandi með 80 milljón íbúa vel staðsett á meginlandi Evrópu, efnahagur landsins er traustur og lífskjör góð.
Litla Ísland er hins vegar óhagkvæmari eining, við fámenn á stórri eyju í Norður-Atlantshafi. Til að vega það upp þurfum við að hafa 20 til 30% hærri þjóðarframleiðslu á mann en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Til að ná dönum og svíum þurfum við þannig 50% + 30% = 80% meiri þjóðarframleiðslu á mann á ári og allt að 100% til að ná norðmönnum.
Samráðsvettvangur um aukna hagsæld sem starfræktur var í framhaldi af útkomu McKinsey skýrslunnar taldi raunhæft að stefna á 2,6% hagvöxt á mann á ári næstu árin. Til þess að það næðist þyrfti að taka á ýmsum vandamálum í hagkerfinu svo sem 20% minni framleiðni vinnuafls en í nágrannaríkjunum, 8% minni fjárfestingum í atvinnulífinu, bæta menntakerfið o.fl.
Ljóst er að læknar og aðrir geta ekki beðið mörg ár eftir stóraukinni þjóðarfamleiðslu. Það þarf að hækka laun þeirra strax eins mikið og hægt er án þess að almenn sátt um að þeir fái meiri hækkanir en aðrar stéttir bresti. Því eru takmörk sett hversu mikið laun þeirra geta hækkað miðað við þetta.
Það sem á vantar þarf að koma á lengri tíma með grunndvallar breytingum sem geta leitt til aukinnar hagsældar samanber hugmyndir Samráðsvettangsins og fleiri. Læknar og aðrir launamenn þurfa að krefjast aðgerða sem auka það sem til skiptanna er og sem lækka útgjöld heimilanna:
- Opnað verði á tollfjálsan innflutning matvæla og minnka niðurgreiðslur til landbúnaðar um 2/3, niður í Evrópumeðaltal. Við getum ekki verndað og styrkt landbúnaðinn mest í heimi á sama tíma og t.d. heilbrigðiskerfið er í voða.
- Tekinn verði upp traustur gjaldgengur gjaldmiðill, væntanlega Evran með aðild að ESB, til að koma hér á stöðugleika, lækka vexti og stórbæta grundvöll atvinnulífsins til að vaxa og dafna.
- Vægi einkareksturs í heilbrigðisþjónustu verði aukið til að notendur hafi val, stytta biðlista og bæta laun heilbrigðis starfsmanna.
- Að bæta húsa- og tækjakost heilbrigðisstofnana, sérstaklega Landspítalans.
Ofangreindar aðgerðir bæta lífskjör til lengri tíma litið um 30 til 40%. Þótt hvorki læknar né aðrir séu sammála um stefnu í t.d. Evrópumálum getur fólk krafist faglegra vinnubragða og raunhæfra aðgerða sem auka hér hagsæld og jafna lífskjarabilið við aðrar þjóðir þannig að við getum unað hér sátt.
2.12.2014 | 07:05
Staðsetning nýja Landspítalans
Vonandi styttist í að hagur ríkissjóðs vænkist og að hægt verði að hefjast handa við byggingu nýs Landspítala. Staðsetningin við Hringbraut er hins vegar mjög vafasöm og því mikilvægt að nýta tímann vel til að huga betur að henni áður en hafist verður handa.
Staðsetning við Hringbraut er umdeild
Steinn Jónsson þáverandi formaður Læknafélags Reykjavíkur telur, samkvæmt grein árið 2012, að megin röksemdir nefndar um staðarval frá 2002 standist ekki. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segist hefði valið annan stað. Margir þeirra sem hafa stutt staðsetningu við Hringbraut hafa gert það vegna þess að þeir hafa talið of seint að breyta. En það er ekki of seint, það gerir spítalann betri og það flýtir jafnvel fyrir að hægt verði að hefjast handa, eins og hér verður sýnt fram á.
Staðsetningin skiptir gríðarlega miklu máli fyrir stóran hóp fólks.
Komur sjúklinga að meðtalinni bráðamóttöku og göngu- og dagdeildum eru samtals um 450 þúsund á ári. Um 4000 starfsmenn, 1500 nemar og fjölmargir aðstandendur sjúklinga koma og fara. Ferðir alls þessa hóps til og frá spítalanum eru um 3,5 milljónir á ári. Hver kílómetri sem spítalinn er frá besta stað eykur ferðakostnaðinn samtals um 500 milljónir á ári.
Besta staðsetning spítalans
Besta staðsetningin hlýtur að vera sem næst þungamiðju byggðar á höfuðborgarsvæðinu á svæði sem liggur vel við stofnbrautum nú og til framtíðar litið. Sá staður er nálægt hinu nýja byggingarsvæði við ósa Elliðaánna.
Skipulag gerir ráð fyrir að þar komi þúsundir íbúða á næstu árum. Staðurinn liggur vel við gatnamótum Miklubrautar og Sæbrautar og tilvonandi Sundabraut mun síðar koma skammt fyrir norðan svæðið. Staðsetning spítalans við Hringbraut er 3 til 4 km frá besta stað. Ferðakostnaður er því um 1,5 milljarð króna ári hærri þar en á besta staðnum.
Annað vandamál við Hringbrautarlóðina er nálægðin við Reykjavíkurflugvöll því ekki gengur að byggja spítalann á mörgum hæðum þar. Ferðir milli deilda verða lengri og nýting starfsfólks verri en þegar lyftur flýta för. Hvert 1% í betri nýtingu spítalans sparar um 500 milljónir árlega. Ef tímasóun vegna ferða er 2% er árlegur rekstrarkostnaður um 1 milljarði kr hærri en ella.
Gríðarlegur ávinningur
Ofangreint bendir til þess að staðsetning Landspítalans við ósa Elliðaánna, trúlega vestanmegin í hinni nýju Vogabyggð sem er í mótun, myndi spara um 2,5 milljarða kr á ári. Það gerir samtals 100 milljarða kr á 40 árum sem er hærri upphæð en kostar að byggja nýjan spítala.
Annað mikilsvert er að batahorfur sjúklinga eru þeim mun betri sem þeir komast fyrr á spítala sérstaklega í bráðatilfellum.
Hringbrautarlóðin hentar hins vegar mjög vel fyrir íbúðabyggð. Það vantar sárlega íbúðalóðir nálægt miðbænum eins og umræðan um byggingu í Vatnsmýrinni hefur dregið fram og mikil umferð um Miklubrautina kvölds og morgna sýnir. Með makaskiptum á lóðum mætti hrókera þessum byggingaáformum með miklum ávinningi fyrir landsmenn.
Með ofangreint í huga þarf á næsta ári að framkvæma vandaða athugun á því hvar nýi spítalinn verður best staðsettur. Kanna þarf hug eigenda Vogabyggðarlóðanna og annarra lóða sem til greina koma. Ef vel tekst til mun þetta flýta byggingu nýs Landspítala og gera hann að betri spítala en ef hann yrði byggður við Hringbraut.
Grein birtist í Morgunblaðinu 28.11.2014.
1.11.2014 | 19:13
Það væri skemmdarverk gagnvart þjóðinni að slíta viðræðunum.
Aðildarviðræðurnar á endastöð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.11.2013 | 11:59
Fluglestin kemur fljótlega :)
Fluglest, hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, er mjög hagkvæm samgöngubót sem hentar vel í einkaframkvæmd án útgjalda fyrir skattgreiðendur. Nærtækt er að taka Flytoget og Gardermoen flugvöll við Oslo til samanburðar.
Um Gardermoen flugvöll fóru um 17 milljónir ferðamanna árið 2012. Farþegar með Flytoget voru um 6 milljónir eða 35% af farþegarfjölda flugvallarins. Rekstrartekjur Flytoget voru um 17 milljarðar kr. og rekstrargjöld um 14 milljarðar kr. með afskriftum. Hagnaður af starfseminni var um 3 milljarðar kr. Gardermoen línan er 68 km, þar af 51km Oslo Gardermoen, tvöfaldir teinar, þar af rúmir 14 km. í göngum, sem eru lengstu lestargöng Noregs. Hámarkshraði lestarinnar er 210km/klst. Stofnkostnaðurinn var um 160 milljarðar kr. Lestarnar eru 16 með 4 vögnum hver. Uppbygging og rekstur hefur frá upphafi verið án útgjalda fyrir skattgreiðendur í sér félögum á vegum opinberra aðila.
Fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll verður um 2,4 milljónir árið 2013. Fjölgunin hefur verið um 20% undanfarin ár. Miðað við aðeins 10% fjölgun á ári næstu 10 árin verða ferðamenn um 6 milljónir árið 2023, sem er samhljóða við áætlun Isavia. Um 50% ferðamanna munu nota fluglestina og farþegar hennar verða því um 3 miljónir árið 2023. Miðaverð gæti orðið um 2500 kr. að meðaltali, fullt verð 3500 kr. en afsláttarverð til þeirra sem nota lestina oft 1500 kr. Heildartekjur lestarinnar verða þá um 8 milljarðar kr. á ári sem munu aukast með auknum farþegafjölda. Lestarteinarnir verða um 40 km, tvöfaldir og 8 lestir með 4 vögnum hver. Stofnkostnaður verður um 80 milljarðar kr.
Fluglestin verður um 50% af stærð Flytoget. Tekjur hennar verða skv. ofangreindu um 8 milljarðar og gjöld um 7 milljarðar kr. á ári. Hagnaður þá um 1 milljarður kr. á ári .
Þó beinn hagnaður kunni að sveiflast er morgunljóst að gríðarlegur óbeinn ávinningur verður af fluglestinni:
- Bílaumferð um Reykjanesbraut er nú um 10.000 bílar á dag. Ef gert er ráð fyrir 8% aukningu á ári, þ.e. minni aukningu en fjölgun ferðamanna, verða bílarnir um 20.000 á dag árið 2023. Með tilkomu lestarinnar mun bílaumferð minnka um 50%, ferðatími styttist og mengun minnkar. Lestin notar rafmagn, innlendan orkugjafa, í stað eldsneytis sem bílarnir nota. Aksturskostnaður bíla lækkar um tæpa 17 milljarða kr. á ári, þar af eldsneytiskostnaður um 2,8 milljarða kr og hreint innkaupsverð eldsneytis um 1 milljarð kr. Ferðatíminn styttist um ca. 20 mín. Verðmæti þess ef um hreinan vinnusparnað væri að ræða rúm 500 ársverk sem gerir um 2 milljarða kr. á ári.
- Suðurnes og Höfuðborgarsvæðið sameinast sem atvinnusvæði. Atvinnuástand í Reykjanesbæ verður svipað og á Höfuðborgarsvæðinu, meðallaun og íbúðaverð einnig.
- Nærtækara verður að leggja af Reykjavíkurflugvöll og færa miðstöð innanlandsflugs til Keflavíkur. Um Reykjavíkurflugvöll fara 400 til 500.000 farþegar á ári. Rekstur flugvallarins í Vatnsmýrinni kostar um 5 milljarða kr. á ári en ef sú starfsemi sem nú er í Vatnsmýrinni flyttist á Keflavíkurflugvöll myndi kostnaður þar aukast um nálægt 1 milljarð kr. á ári. Beinn sparnaður verður því 4 milljarðar kr. á ári eða 8.000 kr. á farþega sem ætti að geta lækkað flugfargjöld innanlands. Á móti kemur lestarfargjaldið hjá þeim sem leið eiga til og frá Reykjavík og sparnaður nettó um 5.500 kr.
Vegna þess m.a. að fluglestin verður fyrirtæki með sjálfstæðar tekjur og í samkeppni við aðra ferðavalkosti hentar vel að stofna félög um uppbyggingu og eignarhald án útgjalda fyrir skattgreiðendur. Meðal þeirra sem ættu að koma að borðinu með stofnfjárframlag eru ríkissjóður, Reykjavíkurborg, fleiri sveitarfélög á svæðinu, ásamt einkaaðilum sem áhuga hafa. Félagið getur verið á hlutabréfamarkaði. Lán verða tekin fyrir því sem út af stendur af stofnkostnaði. Lífeyrissjóðir, fjárfestingasjóðir og bankar geta lánað í svona öruggt og arðbært verkefni.
Undirbúningur og framkvæmdir tekur 6 til 8 ár. Árlegar fjárfestingar á byggingartímanum verða um 10-12 milljarða króna, verkfræðistofur, teiknistofur, verktakar og fleiri fyrirtæki hér og erlendis fá verðug verkefni.
Að sjálfsögðu mun sumt í ofangreindum forsendum ekki standast en annað mun fara fram úr væntingum. Fluglestin verður arðbær og mikilvæg og tímabært að leggja af stað í þessa vegferð.
Tilvísanir:
Ársskýrsla Gardemoen Flytoget http://www.flytoget.no/eng/About-Flytoget/Annual-reports.
Umfjöllun á Wikipedia:http://en.wikipedia.org/wiki/Gardermoen_Line ,
http://en.wikipedia.org/wiki/GMB_Class_71
Guðjón Sigurbjartsson, viðskiptafræðingur og smáatvinnurekandi
Þessi grein birtist í Mbl. í október 2013. Svo virðist að hún hafi haft tilætluð áhrif sem er gleðilegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2013 | 14:29
Ábending til hagræðingarhóps ráðherranefndar um ríkisfjármál.
Kæri Ásmundur Einar og Vigdís og aðrir í hagræðingarhópnum!
Hér eru nokkrar ábendingar sem ég vona að þið skoðið með opnum huga
1. Opna á innflutning matvæla án tolla, vörugjalda og annarra hindrana.
Ekki veitir af þegar 48% heimila eru í vandræðum með sín fjármál.
Lækka styrki til landbúnaðar síðar þegar landbúaðurinn hefur náð jafnvægi.
2. Ljúka aðildarviðræðum við ESB. Nýta IPA styrkina og fá fram kosti og ókosti við aðild í leiðinni. Allir græða.
3. Taka upp Evru í stað króunu með sérsamningum við Evrópusambandið.
Þetta mun lækka fjármagnskostnað heimila, fyrirtækja og ríksisins verulega. Einnig mun þetta auka fjárfestingar útlendinga í atvinnurekstri í landinu okkar. Alþjóðlegu fyrirtækin okkar s.s. Össur og Marel, munu frekar haldast í landinu.
4. Stytta nám til stúdentsprófs um 2 ár til samræmis því sem gerist í nágrannalöndunum.
5. Sameina háskóla niður í ca. 3-4.
6. Spítalar og heilsugæsla.
Auka einkarekina starfsemi sem afla eigin tekna.
Gera þeim fjáðu mögulegt að kaupa sig fram fyrir í biðröðinni, þ.e. greiða beint fyrir sínar aðgerðir og fá í staðinn flýtimeðferð. Þetta getur ef rétt er á málum haldið, létt á kostnaði skattgreiðenda við heilbrigðiskerfið og stuðlað að betri þjónustu við alla.
7. Styðja að tilkomu sérhæfðra einkarekinna sjúkrahúsa sem beini þjónustu að alþjóðlegum markaði.
8. Fella niður 15% toll á fatnaði og 10% tollinn sem er á ýmsum textil vörum svo sem handklæðum, húfum o.fl. Með þessu flyst talsverð verslun aftur inn í landið og það sem tapast í tollatekjum ávinnst i vsk. Þetta lækkar útgjöld heimilanna.
9. Hækka veiðileyfagjöld á sjávarútveginn nokkuð.
10. Selja hluta af Landsvirkjun.
11. Selja meginhluta af eign ríkisins í bönkunum.
12. Liðka til fyrir fjárfestingum útlendinga í Íslensku atvinnulífi þ.e. breyta þeirri stefnu sem Ögumundur rak.
13. Hvíla okkur á jarðgöngum í bili.
14. Selja RÚV. Ekki vegna fréttastefnu stöðvarinnar, heldur er það óþarfi að ríki á hausnum haldi úti frétta og afþeyingartæki. Það eru margir til í það.
6.8.2013 | 22:54
Mannúð og matvæli
Íslensk matvælaframleiðsla fær um 15 milljarða króna virði árlega í formi markaðsverndar og annað eins í beina styrki á fjárlögum, samtals um 30 milljarða. Ef samkeppnisverndin yrði felld niður og opnað á tollfrjálsan innflutning matvæla myndi það auka ráðstöfunartekjur meðalheimilis um 30-50 þúsund kr. á mánuði sem tugþúsundir heimila myndi muna verulega um.
Þeir sem vilja vernda landbúnaðinn og styrkja beita sumir ýmsum hæpnum fullyrðingum. Sumir segja að Evrópusambandið og flest lönd loki líka á erlenda samkeppni við sinn landbúnað og styrki hann beint eins og við. Einnig að Nýja Sjáland, Japan og fleiri eyjur banni líka innfluting á hráu kjöti til að vernda viðkvæma einangraða bústofna sína eins og Ísland gerir. En þetta er ekki alls kostar rétt.
Innan Evrópusambandsins er opinn markaður fyrir matvæli. Lönd sambandsins eru fjölmenn og aðstæður til landbúnaðar góðar sem stuðlar að virkri samkeppni, fjölbreyttu matvælaframboði og lágu verði. ESB er líka stærsti innflytjandi matvæla á heimsvísu. Sambandið hjálpar þróunarlöndum að selja vörur sínar inn á ESB svæðið með því að veita þeim forgang að markaðinum og leiðbeina þeim við verkið. Árlega er matvara að verðmæti um 10.000 milljarðar (60 milljarðar Evra) flutt inn á ESB svæðið frá þróunarlöndum sem er meira en BNA, Japan, Kanda, Ástralía og Nýja Sjáland gera til samans. Opinberir styrkir ESB til landbúnaðar eru aðeins um 1% af opinberum útgjöldum aðildarlandanna. Hér á landi er stuðningurinn um 3% af heildar opinberum útgjöldum eða þrefalt meiri. Svo eru styrkir ESB aðallega tengdir landnotkun og valda þannig minni óhagkvæmni en okkar framleiðslutengu styrkir sem stýra framleiðslunni í óhagkvæmar áttir.
Varðandi innflutningsbann Nýja Sjálands og Japans má segja að þessar fjölmennu eyjar setja stundum tímabundið bann á hrátt kjötmeti frá löndum þar sem komið hefur upp veirusýking en hafa að öllu jöfnu opið á innflutning.
Lögbundin vernd og stuðningur heimila og skattgreiðenda við landbúnað hérlendis skerðir lífskjör okkar og er skelfilega ósanngjarnt gagnvart illa settum heimilum og þeim erlendu matvælaframleiðendum sem fegnir vildu framleiða matvælin fyrir okkur með ódýrari hætti þar sem aðstæður henta betur til þess.
Við að fella niður samkeppnisvernd landbúnaðarins og opna fyrir innflutning fersks kjöts lækka útgjöld heimilanna um 15 milljarða króna á ári. Það verður vissulega samdráttur og fækkun starfa við matvælavinnslu, mestur í kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu. Auðveldlega má bregðast við með hluta af þeim fjármunum sem sparast og tryggja að þeir sem missa vinnuna fái önnur og hagkvæmari störf.
Verkefni fyrir vinnufúsar hendur eru óþrjótandi. Til ársins 2050 þarf matvælaframleiðsla á heimsvísu að tvöfaldast til að fæða íbúafjöldann sem þá verður um 9 milljarðar. Farsælast er að framleiða matvæli þar sem þau skortir og aðstæður eru góðar svo sem í sólríkum, heitum löndum. Þar er þörfin líka mest fyrir framfarir og atvinnu. Við Íslendingar getum lagt okkar af mörkum með því að aðstoða þróunarlönd við að auka matvælaframleiðslu og opna á innflutning matvæla frá þeim. Við getum veitt þeim forgangsaðgang að mörkuðum okkar og hálpað þeim til við útflutninginn. Til þess getum við nýtt þekkingu, reynslu og starfskrafta bænda og fólks í úrvinnslugreinum. Með hluta af sparnaðinum, til dæmis 3 milljörðum á ári, má lyfta grettistaki og bæta líf tuga þúsunda hér heima og í þróunarlöndum. Fleiri verkefni bíða þeirra sem nú starfa við ofverndaðan landbúnað okkar, ef fjármagn fæst til uppbyggingar, meðal annars við ferðaþjónustu víða um land.
Verum mannúðleg og skynsöm og bætum líf tuga þúsunda sem líða skort hér og annars staðar, þó því fylgi tímabundin röskun fyrir nokkur hundruð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.8.2013 kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)