3.2.2015 | 15:00
Bætum lífskjörin um 50%+
Árið 2013 vorum við í 21. sæti á lista Alþjóðabankans yfir þjóðarframleiðslu á mann (E: GDP pr. Capita) með um 5,6 m.kr á mann á ári. Hæst eru Mónakó, Liechtenstein og Lúxemborg með frá 20,2 m.kr til 13,7 m.kr. Svo kemur Noregur með 12,5 m.kr, rúmlega tvöfalt á við okkur! Danmörk og Svíþjóð eru með um 7,3 m.kr, um 50% hærra en við. BNA er með 6,5 m.kr og Þýskaland með 5,6 m.kr eins og Ísland. Þetta nægir Þýskalandi, 80 milljón manna samfélagi, sem er vel staðsett á meginlandi Evrópu. Landið er fjárhagslega öflugt og lífskjör góð. En Ísland þarf mun meira.
Til að hafa jafn góð lífskjör og fólk í Skandinavíu verðum við að hafa 20 til 30% meiri þjóðarframleiðslu á mann en þær þjóðir vegna þess að við erum óhagkvæm eining, mannfá í stóru, afskekktu, norðlægu landi. Hátt verðlag og óheyrilegur fjármagnskostnaður minnkar einnig það sem afgangs er. Til að ná Dönum og Svíum þurfum við þannig að auka þjóðarframleiðslu á mann um 50%+30% = 80% og allt að 100% meira til að ná Norðmönnum. Auk þess er verðlag lægra í Danmörku og Svíþjóð.
Sóknarfærin eru mörg. Við höfum alls ekki verið nægilega raunsæ og markviss undanfarna áratugi.
Framleiðni vinnuafls er 20% minni en í samanburðarlöndunum og fjárfesting í atvinnulífinu 8% minni. Skýringin er meðal annars mjög mikill fjármagnskostnaður sem dregur úr fjárfestingu og íþyngir einstaklingum en einnig þarf víða að bæta vinnubrögð.
Til að efla atvinnulífið þarf traustan alþjóðlega gjaldgengan gjaldmiðill sem kemur á stöðugleika og lækkar vexti. Besti kosturinn er, að sögn Seðlabankans og samkvæmt almennri skynsemi, evran, með fullri aðild að ESB. Fyrirtækin munu geta greitt hærri laun og fjármagnskostnaður heimila mun minnka um hundruð þúsunda á ári.
Aðildin færir okkur einnig að borði þar sem obbinn af framtíðarlögum og -reglum þjóðfélagsins verður mótaður.
Opna þarf á tollfrjálsan innflutning matvæla og minnka niðurgreiðslur til landbúnaðar um 2/3, niður í Evrópumeðaltal, hvort sem við göngum í ESB eða ekki. Við þetta aukast ráðstöfunartekjur heimila um hundruð þúsunda á ári.
Útlit er fyrir að okkar sjávarútvegi muni vegna vel innan ESB en til að meta það endanlega þarf að leiða aðildarsamningana til lykta.
Menntakerfið þarf að bæta. Unga fólkið kemur seinna út á vinnumarkaðinn og margir með slakari menntun en í samanburðarlöndunum. Stytta þarf grunn- og framhaldsskóla og bæta menntun á öllum skólastigum þannig að við fáum vel menntaða einstaklinga fyrr út á vinnumarkaðinn. Fleira mætti tiltaka en þetta eru aðalatriðin.
Hagvöxtur síðustu ára byggist á auknum ferðamannastraumi og makríl. Þetta hjálpar, en til að stórbæta lífskjörin þurfum við raunverulegar breytingar á grunnstoðum samfélagsins. Aðilar vinnumarkaðarins ættu í komandi kjarasamningum að draga ríkisstjórnina að borðinu og krefjast slíkra aðgerða en fara varlega í krónutöluhækkanir umfram það sem innistæða er fyrir.
Viðræðuslit við Evrópusambandið er ekki eitt af því sem við þurfum núna. Slíkt væri þvert á móti skemmdarverk gagnvart þjóðinni sem mun ef til kemur tefja lífskjarabatann um mörg ár. Núverandi ríkisstjórn væri þá eins konar slitastjórn Íslands því ef okkur tekst ekki að bæta lífskjörin verulega höldum við áfram að dragast aftur úr nágrannaþjóðunum og þá fjarar hratt undan okkar góða þjóðfélagi.
Höfundur er viðskiptafræðingur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.