Kvótinn og hagur þjóðarinnar

Börn að neyta landbúnaðarafurðaSamlíkingin við Zimbabwe er góð.  Í samanburði við aðrar þjóðir Afríku var landbúnaðarframleiðsla öflug.   Landið framleiddi mikið og flutti út sem skapaði mikilvægar tekjur fyrir þjóðina sem kom öllum vel með einum eða öðrum hætti.   Driffjaðrarnar að baki öflugum landbúnaði voru stórir landeigendur, yfirleitt af Enskum ættum, innflytjendur.  Þeir fluttu með sér þekkingu á landbúnaði og það skipulag sem nægði til að framleiðslan gengi fyrir sig.   Forsetinn, Robert Mugabe nýtti sér fáfræði almenning til að haldast við völd enn eitt tímabilið með því að setja á oddinn að skipulag landbúnaðarins væri ósanngjarnt.   Fáir landeigendur ættu mikið land og allur almenningur ætti lítið og væri því fátækari en ella.  Það vantaði "eðlilega endurnýjun" í greinina.   Hver vill ekki fá eitthvað sem virðist góð eign í ef hann "á rétt á því"?   Almenningur kaus populistann Mugabe og eignaupptakan gekk um garð.  Landbúnaðarframleiðslan hrundi og efnahagurinn með.  Landið þarf nú að flytja inn landbúnaðarafurðir og efnahagurinn er í rúst. Út úr þessu kom e.t.v. meira "réttlæti" fyrir einhverja, en það er alla vega komin meiri örbyrgð fyrir fjölmarga og ekki útlit fyrir að það breytist í bráð.

Það að bændur eigi jarðir hefur reynst besta fyrirkomulagið sem heimurinn hefur séð.   Samykjubú hafa verið reynd og eignaupptaka samanber Zimbabwe en það ekki reynst vel.

Svona mun þetta fara hjá okkur ef við afnemum ígildi eignar útvegsmanna á kvótanum.  Það fyrirkomulag hefur í aðalatriðum tryggt hagræðingu í greininni og suðlað að framförum.  Útvegmenn hafa getað skipulagt til langs tíma, hagrætt, keypt öflug atvinnutæki osfrv. 

Það skipulag sem nú er í burðarliðnum og almenningur í leit sinni að "réttlæti" styður skv. skoðanakönnunum mun e.t.v. koma á meira réttlæti fyrir einhverja, en öruggleg draga úr lífskjörum flestra.

Ef við förum að beita beinu lýðræði í málum er snerta fjárhag almennings er hætta á að teknar verði verri ákvarðanir fyrir land og þjóð en annars væri.   Kostir fulltrúalýðræðis eru m.a. að þeir sem kosnir eru hafa betri tækifæri til að setja sig inn í mál áður en þeir taka ákvörðun.   Ákvarðanir sem byggjast á þekkingu hljóta að öðru jöfnu að vera betri en ákvarðanir sem nánast einvörðungu byggjast á tilfinningum og orðrómi.  

Þess vegna var það hæpið að besta niðurstaða fyrir þjóðina fengist með beinu lýðræði og það er einnig hæpið að besta niðurstaða varðandi eignarrétt útvegsmanna til kvóta fáist með beinu lýðræði.  Ríkisstjórnin skákar í því skólinu að hún hafi þjóðina á bak við sig.  Það getur hún út af því að stjórnarandstaðan í sínum populisma fyrir Icesave taldi mikilvægt að "þjóðin" tæki ákvörðun í því máli.  Andstaðan á því erfitt með að snú við blaðinu núna og segja að betra sé að fulltrúarnir taki ákvörðun fyrir þjóðina í þessu máli.

Sjórnmálamenn eiga og þurfa að hugsa langt.  Það er einn af göllu stjórnarfarsins að þeir hlaupa oft eftir því sem hentar hverju sinni og fellur vel að almenningsálti.   Við það tapast kostir fulltrúalýðræðisins, því fulltrúarnir fara eftir því sem almenningur virðist vilja skv. skoðanakönnunum.  Það er þó í raun svik við umbjóðendurna ef fulltúarnir vita betur. 

Vonandi ber Stjórnlagaráði gæfa til að koma með tillögur að breytingum á stjórnarskrá sem eru vel ígrundaðar en byggist ekki á því sem nú virðist uppi meðal almennings að allt verði betra ef hann er bara spurður oftar um mál.  Vonandi áttar almenningur sig á því að svo er ekki í reynd.  Þetta er augljóst ef sagan er skoðuð.  Við þurfum góða stórnarskrá sem bætir hag okkar og líf, en ekki eitthvað sem um stundarsakir virðist "réttlæti".  Réttlæti er afstætt og stundum veit maður ekki hvað er manni fyrir bestu.

http://en.wikipedia.org/wiki/Zimbabwe

 


Spyrlar og þáttastjórnendur þurfa að átta sig.

Eftir hrun finnst mér oft að þáttastjórnendur og spyrlar í útvarpi og sjónvarpi fari offari í framkomu við viðmælendur sína og séu nasty og leiðinlegir við þá.   Það er eins og spyrlarnir þori ekki annað en sýna ónærgætni og allt að því hörku oft á tíðum.  Vafalítið býr að baki vilji til að standa sig vel í mikilvægu aðhalds hlutverki fjölmiðla og upplýsa helst um hulinn sannleika, leiða fram mikilvægar upplýsingar fyrir áheyrendur.

En svona má þetta ekki ganga til áfram.   Maður vorkennir oft viðmælendunum og leiðist orðaskak, pex og smámunasemi spyrlanna.  Hætt er við að ef þetta heldur svona áfram þá leiði þetta til þess að viðmælendurnir, hvort sem er stjórnmálamenn eða aðrir sem fyrir verða,  nenni ekki að sitja undir endalausum leiðindum og snúi sér að öðrum viðfangsefnum.   Það er sem sé hætta á enn meiri atgerfisflótta úr stjórnmálum og af öðrum póstum sem þurfa að eiga erindi við almenning og eru títt í fjölmiðlum.

Nú er mikilvægt að fjölmiðlafólk veiti aðhald og upplýsi vel um mál en leiðin er ekki frekja og yfirgangur við viðmælendur.   Málið snýst um að kynna sér mál, vera inn í málum og undirbúa sig.   Spurningar og eftirfylgni eiga að byggjast á þekkingu og innsæi, vera markvissar og það á vissulega að fylgja áhugaverðum þráðum eftir þegar upp koma, en með áhuga fyrir málinu ekki sýndar aðgangshörku.   

Það á að koma fram af virðingu og tillitssemi fyrir viðmælandanum því þannig ganga mannleg samskipti best.   Það verður áheyrilegra og gagnlegra, hægt að komast yfir meira og fá betri og greinilegri upplýsingar ef vel tekst til.    

Fjölmiðlafólk getur ekki vikið sér undan sínu hlutverki með yfirborðslegri ósvífni og pexi.  Málið snýst um raunverulega greiningu og eftirfylgni, sem unnin er með vinsemd og virðingu fyrir viðfangsefninu.  Það skiptir máli að samtölin séu áhugaverð á að hlíða.  Það verður árangursríkara og farsælla þegar til lengdar lætur. 


ESB og landbúnaður á Íslandi. Allir hagnast ef við viljum.

"Bændasamtökin vilja áfram verndartolla, jafnvel þó að Ísland muni ganga í Evrópusambandið. Vilja samtökin að bændur fái undanþágu undan öllum reglum ESB varðandi innflutning á landbúnaðarafurðum. Hefur þetta komið fram á rýnifundum um landbúnaðarmál í Brussel, milli samningahópa Íslands og ESB."

Ef að þetta er raunveruleg afstaða bændasamtakanna þá þyrftu þau að hugsa málið betur.  Segjum sem svo að bændur fengju þessar kröfur samþykktar.  Þá myndu þeir, sem og aðrir, njóta ávaxtanna af ESB aðild nefnilega lægri vaxta, stöðugra verðlags, meiri ferðamannastraums og tekna af þeim.  Einnig fengju þeir opinn markað fyrir landbúnaðarafurðir í Evrópu með tilheyrandi vaxtartækifærum.  Þeir myndu sem sé stórgræða á aðild.

Það er því ljóst að þó markmiðið landbúnaðarins sé að tapa ekki á aðild gæti hann búið við minni tollavernd án þess að tapa á heildina litið.  Minni tollavernd lækkar líka verð landbúnaðarafurða sem dregur úr verðbólgu, sem minnkar verðbætur á verðtryggð lán og minnkar þrýsting á launahækkanir vegna þess að fólk þarf minna til að komast af í landinu.  Það gerir svo arðbæra ýmsa atvinnustarfsemi sem ekki ræður við há laun, sem kemur grundvelli undir fleiri störf i landinu líka fyrir bændur og eykur þar með atvinnu.  Það er því atvinnuskapandi að lækka verð á landbúnaðarafurðum.

Það er ljóst að ef bændur neita að skilja þetta samhengi hlutanna þá þurfa aðrir halda þessum sjónarmiðum á lofti.  Allur almenningur og líka bændur munu græða á ESB aðild ef við viljum.

Skattgreiðendur gætu líka ákveðið að bæta bændum upp það sem þeir tapa við ESB aðild því hagurinn af inngöngu réttlætir fórnir til handa þeim sem mest missa við aðild.  Allir gætu hagnast ef við viljum.

 


ESB, Icesave og stjórnmálaskoðanir

Afstaðan til ESB, IceSave, Stjórnlagaþings og landbúnaðarstyrkja er í eðli sínu ekki flokkspólitísk. 

Þjóðir Evrópu eru mismunandi langt til hægri og vinstri en eru samt allar nánast í ESB. 

Það hvort breyta á stjórnarskránni með stjórnlagaþingi eða láta alþingismenn um það er spurning um praktíska aðferðafræði og afstöðu til spurningarinnar "Alþingi hefur lítið breytt stjórnarskránni þrátt fyrir brýna þörf allt frá lýðveldisstofnun.  Er líklegt að alþingismenn nái saman um róttæka breytingu á stjórnarskránni ef hennar er talin þörf?" 

Styrkir til landbúnaðar sem hafa verið studdir af xD eru ef eitthvað heldur vinstri sinnað fyrirbæri, en hjá okkur er ástæða víðtækra styrkja til landbúnaðar meira vegna misvægis atkvæða milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis sem og almennt sterkrar þjóðernistilfinningar eyjaskeggjans.

Það sem í grunninn á að ráða stuðningi við tiltekinn stjórnmálaflokk, og þannig eiga stjórnmálaöfl að skilgreina sig fyrst og fremst, er afstaða til grunnskipulags þjóðfélagsins, séreign eða sameign, samkeppnisrekstur eða opinber áætlunarbúskapur oþh.  Auðvitað koma fleiri mál til svo sem afstaða til náttúruverndar, trygginga, kvenrettinda (áður fyrr nú allir sammála um sumt af þessu) o.fl.

Foringjar stjórnmálaflokkanna eiga ekki að ætlast til þess að flokksmenn styðji öll mál og gera það reyndar ekki, en sumir virðast ætlast til þess af þeim. Þá myndu stjórnmálin verða auðveldari viðfangs.

Ef okkur auðnast að breyta stjórnskipulaginu/stjórnarfari landsins yfir í forsetaræði, eins og er í USA, Frakklandi og reyndar fleiri þjóðlöndum en það úrelta þingræði sem hér er, sem aðallega er í norður Evrópu, þá myndu ofangreind álitamál vera afgreidd eitt af öðru nokkuð óháð flokkum.  Forseti sem byði sig fram og sína stefnu og fær stuðning við t.d. andstöðu við ESB, hann leiðir ekki inngöngu í ESB og s. frv.  Þingmenn sem ekki þurfa að takast á við framkvæmdastjórnina (framkvæmdavaldið þ.e. forseti/forsætisráðherra kosinn beint) geta í meira mæli tekið afstöðu til mála óháð flokksræði.

 


Sjallar taki við af VG

Halló!   Nú er nóg komið af VG.   Þeir þvælast fyrir í atvinnumálum og vilja þjóðnýta orkufyrirtæki, þó það eigi engar auðlindir koma óorði á landið sem óstöðugt bananalýðveldi o.fl. 

xD verður að leysa þá af við landsstjórnina.   Jóhanna og Samfylkingin er til í að dansa ef Sjallar  leyfa ESB umsóknarferlinu að ganga fyrir sig, lofa að styðja að Stjórnlagaþing verði haldið og geta þá haft jákvæð áhrif á það og samþykkja nýja IceSave samninginn.   

Allt eru þetta mál sem verða hvort eð er að ganga fyrir sig.  ESB málið verður útkláð í þjóðaratkvæðagreiðslu, stjórnarskrárdrög þurfa að koma fyrir þingið aftur og að sjálfsögðu þarf að samþykkja nýja IceSave samninginn. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að vera ábyrgur og raunsær í núverandi stöðu.  Hann átti hlut að máli að koma okkur í erfiða stöðu og nú þarf hann að sýna iðrun og ábyrgð.

Það er grafalvarlegt fyrir okkur fólkið ef endalaust er þvælst fyrir í atvinnumálum, óorði komið á landið vegna óstöðugs stjórnmálaástands.  Ábyrgir stjórnmálamenn eiga að hætta að karpa um það sem þýðir ekki að karpa um og taka af skarið fram á við.

Því legg ég til að Sjálfstæðismenn ræði við Samfylkingu og stilli saman strengi og það sem fyrst.

Áfram Ísland.


Ógild kosning til Stjórnlagaþings - Ástæður og afleiðingar.

Hæstiréttur ógilti kosninguna til Stjórnlagaþings!   Enn ein furðu uppákoman!  Ætlar þessu aldrei að linna?  Ljóst er að rétturinn gat látið duga að finna að því sem aflaga fór en tók þessa afdrifaríku afstöðu.  Hvers vegna skyldi það vera?  

Að mínu mati eru líklegar skýringar þessar:

1.  Þeim finnst ólíklegt að sátt verði um niðurstöðu Stjórnlagaþings af því að Sjálfstæðisflokkur hefur ekki verið jákvæður í undirbúningi. 

2.  Þeim líst ekki vel á fulltrúana sem völdust til þingsins, telja þá of róttæka. 

Ógildingin getur ekki annað en leitt af sér að:

a) Kosið verður aftur.  Þeim sem líst ekki á síðustu úrslit gefst færi á að ná vopnum sínum og koma að sínu fólki, t.d. þeir íhaldssömu geta komið fleiri slíkum að.

b) Þeir sem voru kosnir verða skipaðir sem nefnd, sem dregur enn úr vægi þingsins.

c) Hætt verð við.

Fyrsti kosturinn er bestur þó hann kosti fyrirhöfn og fjármuni.    Það er von þeirra íhaldssömu að úrslitin verið þeim þá þóknanlegri eða að kosningin fari svo illa út um þúfur að málið ónýtist og ekkert verði úr endurskoðun að þessu sinni.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar er mjög mikilvæg fyrir okkur og helst án margra stjórnmálamanna í framboði, takk.  Verum brött og efnum til nýrra kosninga og endurbætum umgjörðina þannig að þingið verði örugglega mjög veigamikið og ekki hægt fyrir Alþingi að ganga fram hjá niðurstöðum Stjórnlagaþings.


Samræður um kosti og galla ýmissa þjóðfélagsmála t.d. ES aðildar

Hvernig eru samræður okkar í þessu landi um mikilvæg mál?  Eru þær gagnlegar og góðar eða eru þær yfirborðslegar og þraskenndar?  Það er sjálfsagt misjafnt en mig grunar að ef við myndum læra og þjálfa okkur í betri samræðuleikni, þá myndi það skipta miklu máli til góðs.  Þarna kemur heimspeki inn í myndina.  Heimspeki er fræðigrein sem að hluta til snýst um samræður og hvernig rökræða má sig fram til niðurstöðu.  Það þarf að kenna heimspeki og samræður meira í grunnskólum.  Það þarf að ástunda gagnlegar samræður í fjölmiðlum, minnka hlut stjórnmálamanna í skotgröfum og auka hlut þeirra sem þekkja til mála og hafa umræðuna undirbúna.  Dæmi um skort á umræðum og samræðum er að í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings, sem ætti að geta orðið mjög mikilvæg samkoma fyrir okkur íslendinga, var meira rætt um hvernig blýantar yrðu notaði í kjörklefunum en um þau málefni stjórnlagaþingið væntanlega þarf að fjalla um.   Það hefði verð ástæða til þess fyrir fjölmiðlana að taka fyrir eitt og eitt mál, dag eftir dag og ræða það nokkuð vandlega.  Þá hefðu kjósendur getað myndað sér skoðanir á því hvað skipti mestu máli og síðan valdið þá frambjóðendur sem voru á þeirri línu. 

Umræðan virðist æði oft fara ofan í hjólför þar sem sömu rökin eru síendurtekin og menn spóla í sama farinu.   Við þurfum að rökræða af opnum hug með réttsýni og sanngirni að leiðarljósi.  Það skiptir okkur öll miklu máli hvernig framtíðin verður í þessu landi og því er það eðlilega þörf okkar að hún verði rökrétt og markviss en ekki vanhugsuð og mislukkuð.  Það er vont fyrir alla ef samræður okkar og fjölmiðlaumræða skilar engu eða litlu og lélegu.  Umræðan þarf að skila góðri réttri niðurstöðu.


Lekar, njósnir og góða samskipti

Afstaða margra til upplýsingaþjófnaðar a.la. Wikileaks er mismunandi eftir því hvort stolið er frá öðrum t.d. bandaríkjamönnum eða okkur íslendingum.  Hérlendir telja margir allt í lagi að stela upplýsingum af öðrum og vilja hjálpa til við birta þær jafnvel þó þær upplýsingar séu inn á milli lífshættulegar vegna tengingar við  hernaðarátök og stóra hagsmuni.  Hins vegar ef njósnað er um samskipti innan okkar litlu stjórnsýslu þá er það yfirgengilegur glæpur og ber að taka hart á.  Gæti verið að sumir óttist að upp komist um bullið, ruglið og baktjaldamakkið þar sem ýmsir sem ættu að gæta hagsmuna þjóðarinnar láta nú stundum t.d. flokkshagsmuni ganga fyrir ?  Skyldi þó ekki vera.

Er ekki kominn tími til fyrir okkur íslendinga að gæta jafnræðis í samskiptum við aðrar þjóðir?  Ef við viljum að komið sé vel fram við okkur og þá eigum við koma þannig fram við aðra.  Ef við viljum geta átt og rekið fyrirtæki erlendis þá eiga útlendingar að geta gert slíkt hið sama hér.  Ef við viljum geta átt í útgerðum erlendis eiga útlendingar að geta átt í útgerðum hér.   Ef við viljum taka þátt í orkuvinnslu og dreifingu erlendis á slíkt hið sama að gilda í hina áttina.

Jafnræði og gagnkvæm virðing, það er málið.

 


Það er fráleitt að þjóðnýta náttúruauðlindir

Það er fráleitt að þjóðnýta náttúruauðlindir. 

Í minni gömlu sveit og víðar eiga bændur jarðir sínar.  Það þótti ekki góð latína að menn og konur yrðu leiguliðar.  Samyrkjubúskapur ekki til bóta.

Við þurfum hins vegar að krefjast þess að vel sé hugað að rammanum þannig að samkeppni virki á sviði orkumála sem og annars staðar (það átti líka að hafa gott eftirlit með bönkunum en það brást).  

Það hvaða náttúruauðlindir á að vernda það er allt annað mál.

Það að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um að þjóðnýta þetta og hitt er eftir öðru.  Að sjálfsögðu gæti fólk almennt haldið að það væri að kjósa sér í hag ef það fær að kjósa einhverja tiltekna eign í sína eigu.   Það mætti eins hafa atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna t.d. Icelandair um að þeir bara eigi fyrirtækið.  Hver myndi ekki vilja það, ef það væri löglegt.  

Eignarréttur er grundvallaratriði sem við verðum að skilja og virða.  Það er okkur fyrir bestu til langs tíma litið.

Mótmælum vegtollum kringum höfuðborgarsvæðið!

Þeir sem ekki sætta sig við vegtolla ofan á ofurskatta á eldsneyti sem nota á til vegagerðar, geta látið þá skoðun í ljósi hér http://www.fib.is/.

Vaðlaheiðargöng eiga að bíða í núverandi efnahagsástandi.  Hagkvæmni þeirra er lítil sem engin. 

Annað gildir reyndar um helstu tengileiðir til höfuðborgarsvæðisins og e.t.v. mætti fjármagna þau með vegtollum, en það eru þegar ofur skattar á eldsneyti og kostnaður við töku vegtolla er talsverður. 

Það verður að sniða sér stakk eftir vexti og framkvæma eftir efnum og ástæðum.  Það á að taka næst þá punkta í vegakerfinu sem eru mestu slysavaldarnir.    Þar er kafli milli Hveragerðis og Selfoss líklega vestur.  Það mætti byrja á að gera 2+1 veg þar á milli og tvöfalda svo þegar það er framkvæmt efnahagslega.

Ljós í myrkrinu er hvað dauðaslysum í umferðinni hefur fækkað á undanförnum árum.  Þar er um að þakka aðallega tvöföldun Reykjanesbrautar og þeim lagfæringum sem gerðar hafa verið á vegum nú þegar upp í Mosfellsbæ og að hluta til yfir Hellisheiði.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband