Vaðlaheiðargöngin verða að bíða betri tíma

Göngin eru rúmir 7 km með öllu.  Kostnaður pr. km. er rúmur 1 milljarður kr. eða rúmir 7 milljarðar alls.  Göngin stytta leiðina um rúma 23 km og áætlað er að rúmlega 500 bílar á dag noti göngin.   

Sparnaður við gögnin er um 500 m.kr. á ári m.v. 100 kr/km en árlegur kostnaður við framkvæmdina er eitthvað meiri. Það eru ýmsar leiðir til að reikna þjóðhagslega arðsemi svona mannvirkja og sjálfsagt má fá út bæði verri afkomu og líka betri.

Hvað sem því líður þá gengur ekki, alla vega í núverandi í kreppuástandi að kreista peninga út úr suðvesturhorninu fyrir svona kostnaðarsama framkvæmd.

Vegtollar sem eingöngu koma á þéttbýlissvæðið á SV horninu eru skelfilega óhagkæmir og óeðlilegir ofan á mikla skattlagninu á eldsneyti sem nota á til vegagerðar.  Sú skattlagning verður að duga og þyrfti helst að lækka.  

Því miður, ekki fleiri óhagkvæm göng í bili.

 


Wikileaks og Íslandið góða

Hversu trúverðugt er það að Ísland verði griðland upplýsinga?Er umgengni okkar íslendinga við sannleikann til fyrirmyndar? Er minna af leyndarmálum í okkar stjórnkerfi en annarra? Tölum við betur um annað fólk en gengur og gerist? Þolir það sem við segjum um fólk af öðru þjóðerni betur dagsljósið en það sem fólk af öðru þjóðerni segir um fólk af öðru þjóðerni?

Eigum við sem þjóð að styðja við þá sem vinna kerfisbundið að því að birta stolnar leynilegar upplýsingar úr stjórnkerfi lýðræðislegra nágrannaþjóða og birta þær á vefnum?

Hvernig væri nú að vinna heimavinnuna, bæta okkar eigin upplýsingamál og umgengni við sannleikann og láta aðrar stærri þjóðir um það sem fylgir því að bæta hið sama á heimsvísu?

Við getum haft nóg að gera við að taka til í eigin ranni eftir hrunið, sem varð meira og skaðlegra en ella vegna slæmrar umgengni okkar fólks í umgengnir við sannleikann, ekki satt?  


Stjórnarskráin - Nú er tími til að skapa

Nú í aðdraganda Stjórnlagaþings og meðan á því stendur verður vonandi góð umræða í þjóðfélaginu um þau málefni sem skipta mestu máli varðandi stjórnaskrána.  Því fleiri sem setja sig inn í aðalmálin og taka þátt í umræðunni, því betra. 

Það er nefnilega þannig að stjórnarfarið ræður ansi miklu um það hvernig okkur vegnar.  Nú er tækifæri til að taka til hendinni.  Það er frekar að það takist ef margir leggjast á árarnar um breytingar. 

Þeir sem lítið telja sig hafa lítið vit á málinu telja öruggast að vera íhaldssamir og leggjast frekar gegn breytingum. Þeir sem kynna sér málið aðeins sjá að það er talsverðra breytinga þörf og þar er skýr aðskilnaður framkvæmdavalds og löggjafarvalds langmikilvægasta málið.  Ef sú breyting næst fram þá breytast stjórnmálin verulega.  Ábyrgð á toppi valdakerfisins verður skýrari, umræðan um álitamálin dýpri og líkur á góðum vel í grunduðum ákvörðunum og styrkri markvissri stjórnun meiri.  Lýðræði vex, því við kjósendum fáum að velja sjálf beint til framkvæmdavaldsins í stað þess að láta þinginu það eftir, sem er fráleitt í nútíma þjóðfélagi.  Það var skiljanleg úrfærsla lýðræðis þegar aðeins lítill hluti fólks var læs, fjölmiðlar litlir og samgöngur tregar.  Ekki núna.  Það er tími til að breyta til batnaðar.  


Wikileaks - Hvenær má stela og uppljóstra upplýsingum?

Er réttlætanlegt að styðja þjófnað á leynilegum upplýsingum og miðlun Wikileaks á þeim til annarra?  Er það eitthvað sem almenningur á Íslandi og stjórnvöld okkar eiga að gera?  Það finnst mér fráleitt.

Hér er um að ræða þjófnað viðkvæmra upplýsinga frá nálægri vinaþjóð, með lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum.  Þeim stjórnvöldum er treystandi til að meta hvað á að fara leynt.  Það að halda upplýsingum leyndum er mjög eðlilegt í mörgum tilvikum.  Það viðgengst t.d. í öllum fjölskyldum.  Ef allt er í lagi í samskiptunum er sannleikanum miðlað af tillitssemi við þann sem vitað er að myndi e.t.v. taka þær nærri sér.   Sama á við um samskipti þjóða.  Það hvaða upplýsingar eru opinberar ræðst af hagsmunum og tillitssemi eftir atvikum.  Það er alveg eðlilegt.

Það er fráleitt að virða að vettugi eignarrétt annarra, hvort sem er á upplýsingum eða öðru.  Það að styðja opin skoðanaskipti og minni leyndarhyggju á ekki að fá útrás í þjófnaði upplýsinga frá löglega kjörnum stjórnvöldum nágranna vinaríkja.  Við sem viljum vinna að opnara og réttlátara þjóðfélagi verðum að gera það innan ramma laganna.

Nú er auðvitað sitt hvað sem læra má af þeim upplýsingum sem fram hafa komið en sama, það þarf að vera innan laganna og virða hagsmuni og sjónarmið eigenda upplýsinganna.  Það kæmi sér stundum vel að gert keyrt á 150 km hraða, en það bara má ekki nema í neyð og þá með hvítu flaggi.


Wikileaks hentjurnar sigra heiminn og gera garðinn frægan - er það ekki?

Hvaða snillingar eru það sem eru að slá sér upp á þessu stórhættulega Wikileaks máli á kostnað okkar íslendinga? Ætlar þessi heimsfrægðardraumur barnalegra manna með minnimáttarkennd í bland við stórmennskukomplex engan endi að taka? Á nú að sigra heiminn með því að bjóða stórveldunum birginn? Hvað hrópaði maurinn á götunni til Edda maurs sem var búinn að skríða upp á hálsin á fílnum?  Dreptann Eddi, dreptu hann. 

Já við eigum að kenna þeim hvernig á að standa að málum.  Við myndum gera það miklu betur.  Allt upp á borðunum hjá okkur, engin leyndarmál sei sei nei.  Já við höfum svo sannarlega efni á því að breiða soldið úr okkur. Æðislega er það nú þægileg tilfinning að vera svona perfekt, er það ekki annars?


Kosningarnar - Af hverju var þátttakan lítil?

Það eru nokkur atriði sem gera þessa litlu þátttöku:

1. Það buðu sig svo margir fram (þröskuldur of lágur) að ljóst var kjósendum að þeir kæmust ekki í gegnum að kynna sér þá vel.  Fólki féllust hendur.

2. Upplýsingar um afstöðu þátttakenda til mála voru ekki nægrar í útgefnu efni.  Mikil vinna og nánast ómögulegt að finna út úr því svo vel væri.

3. Efnislegar umræður í fjölmiðlum, um það sem máli skiptir þegar valið er til stjórnlagaþings, voru litlar.  Meira rætt um formið svo sem blýantana sem voru valdi, talningarkerfið osfrv. 

4. Margir, sérstaklega sjálfstæðismenn sögðu "það er nær að gera eitthvað annað .... þetta er arfa vitlaust."

Því fór sem fór.

Það að fleiri mættu til að fella Icesave sýnir hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslur eiga ekki við um t.d. fjárlög.  Fólk kýs gegn því að þurfa að borga meiri skatta. Það er allt annað að taka afstöðu til álitamála svo sem hvort eigi að aðskilja ríki og kirkju.  Það er heppilegt mál til þjóðaratkvæðagreiðslu og reyndar fleiri mál sem teljast til stjórnarskrármála.

 

Kveðja,

Guðjón

 


Stjórnarfarið okkar er að stofni til meira en 150 ára. Þá voru engir bílar, fjölmiðlar..

mannfjoldi_94.jpgFyrir meira en 150 árum þegar okkar útgáfa af stjórnarfari, þingræðið, var valið fyrir Danmörk og svo með aðlögun fyrir Ísland, voru engir bílar, engir símar, og lítið um fjölmiðla.  Upplýsingar bárust treglega til alþýðu manna sem hafði því takmarkaðar forsendur til að kjósa um menn og málefni.  Það var því hentugra kjósa fulltrúa til þings og láta það sjá um framhaldið.

Í dag er veröldin mikið breytt.   Forsendur almennings til að taka afstöðu til manna og málefna eru mikið betri en áður var.  Það er því eðlilegt að almenningur komi að fleiri ákvörðunum og ráði beint meiru í eigin málefnum.  Þannig getur almenningur auðveldlega kosið bæði til þingis og til framkvæmdavaldsins, hvort sem það kallast forseti, forsætisráðherra eða ríkisstjóri. 

Það má meira að segja auðveldlega hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök álitamál og persónukjör þó það geri kröfur til þess að fólk setji sig inn í kosti og galla fleiri manna og málefna.  Það er ljóst hvert stefnir.   Löngu tímabært fyrir okkur íslendinga að taka skref fram á við í stjórnarfari.


Hversu hægt eða hratt á að fara í að breyta stjórnarskrám?

Sumir halda því fram að það eigi að fara mjög varlega í að breyta stjórnarskránni og gefa sé góðan tíma.  Það eigi alls ekki að breyta henni þegar órói er í þjóðfélaginu.  Betra sé að endurskoða hana þegar ástandið róast og gefa sér þá góðan tíma.  Nú er auðvitað eitthvað til í þessu en er þetta kjarni málsins?

Það má halda því fram að menn hafi farið mjög varlega og rólega í að breyta stjórnarskránni.  Það stóð til þegar hún var sett 1944 að endurskoða hana, en því hefur í raun stöðugt verið frestað.  Breytingarnar aðeins verð minni háttar.  Þá er átt við að megin efni stjórnarskrár er eins og nafnið gefur til kynna stórnskipan ríkisins.

Það má hins vegar líka halda því fram að það kosti þjóðina verulegar upphæðir ef stjórnarskráin er léleg en samt ekki breytt til batnaðar. 

Dæmi:

1. Nú eru þingmenn 63.  Ef það hefði verð sett í stjórnarskrána fyrir 20 árum að þingmenn mættu ekki vera fleiri en 50 og ef stjórnun landsins hefði ekki goldið fyrir það að vera 13 færri, þá hefðu sparast rúmlega 2 miljarðar króna á þessum árum m.v. að hver þingaður kosti í heild ca. 1 m.kr. á mánuði.

2. Ef þingræði sem stjórnarfar, hentar okkur ekki og gerir það að verkum að það er seinagangur í ákvarðanatöku, ábyrgð óviss og stjórnunin fálmkennd, miðað við t.d. forsetaræði, sem er markvissara stjórnarfar og lýðræðislegra, þá kann að vera að það að hafa ekki breytt yfir í forsetaræði fyrir áratugum t.d. þegar í ljós koma hversu illa gekk að ráða niðurlögum verðbólgunnar, sem er skýrt dæmi um hversu lélegt stjórnarfarð hér hefur verð, hvað þá hrunið, þá gæti þessi dráttur á að hafa ekki tekið á þessu máli, þ.e. lélegu stjórnarfari, sem mótast af stjórnarskránni, hafi kostað okkur hundruð miljarða króna og íslendinga æruna.

Þannig má leiða rök af því að seinagangur þingsins hvað varðar endurskoðun stjórnarskrárinnar hafi kostað þjóðina gríðarlega, en þetta er ekki hægt að sanna.  Á þessu getur fólk haft mismunandi skoðanir og ætti að mynda sér skoðun á því og hugsa svo hvað þeim gengur til sem vilja fara mjög varlega í breytingar.  Er það af því þeir telji það aldrei kosta neitt að bíða með breytingar?  Ef svo er þá er eitthvað að.  En það er einmitt málið, það er eitthvað að hjá ansi mörgum.


Meira lýðræði, betra stjórnarfar - Forsetaræði er það í raun

Þar sem er forsetaræði, þar er meira lýðræði. Ástæðan er sú að þar kýs fólkið til framkvæmdavaldsins þann sem því líkar við með stefnu sem því líkar við. Svo kýs fólkið líka til Alþingis.  Þetta eru tvennar óháðar kosningar og útkoman óháðir aðilar sem deila ríkisvaldinu.  Það er kostur.

Í þingræði sem er hér núna kýs þingið úr sínum hópi ráðherra og ákveður stefnuna, eftir kosningar. Við höfum lítið um það að segja hverjir veljast til forystu og hvaða stefna verður fyrir valinu. Framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið er innbyrðis háð.  Það er hagsmunaárekstur og misvísandi stundum gagnstæðir hagsmunir innan stjórnarflokkar.  Enda gengur þeim ekki vel að höndla vandann, eins og dæmin sanna.

Ef við viljum meira lýðræði þá veljum við þá á Stjórnlagaþing sem vilja forsetaræði, fullan aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds.  Hálfa leiðin sem sumir vilja fara er ekki til neins.

 Forsetaræði er algengara og betra fyrirkomulag en okkar smákónga útgáfa af þingræði, sem hefur ekki reynst vel og mun ekki gera það.


VG og umsóknin um ESB aðild

Óskaplega er VG ólýðræðislegur flokkur að vilja ekki leyfa okkur íslendingum að sjá hvernig samningar nást við ESB.  Treysta þeir okkur ekki til að vega og meta það sem um semst?  Vilja þeir beita afli til að ekki komi í ljós hvað um semst?  Samt er þetta e.t.v. stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar í langan tíma.  Hvers konar ofbeldi er þetta gagnvart samborgurum sínum?

Svo vilja þeir ekki taka við aðlögunarpeningum.  Samt er ljóst að umsóknin um ESB sem samþykkt var á Alþingi og meirihluti íslendinga vildi að yrði samþykkt á þeim tíma og aftur núna, mun kosta stór fé.  Það er einnig ljóst að við alögum ekki nema það sem þurfum hvort sem er að breyta og aðlaga nútímanum.  Því við erum auðvitað á eftir með landbúnaðarkerfið og þurfum hvort sem er að breyta því.  Það er sorglegt að sjá unga bændur gera allt sem þeir geta til að koma í veg fyrir að þjóðin fái ókeypis aðstoð við að lagfæra sumt í kerfinu sem við þurfum hvort sem er að lagfæra.  Kostar landbúnaðurinn þjóðina ekki nóg, þó forystumenn bænda séu ekki einnig að beita sér fyrir því að við tökum ekki við ókeypis peningum sem nema þó um helmingi af árlegum styrkjum til landbúnaður?   Þetta er ódrengilegt og sjálfhverft, eins og svo margt annað hjá hagsmunaaðilum í landbúnaði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband