Mikilvægustu spurningarnar vantar

JSORGSamkvæmt ályktun Alþingis um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá á að leggja fyrir þjóðina sex spurningar um efni tillaganna. En svo furðulegt sem það nú er þá snýst engin spurninganna um kjarna nýju stjórnarskrárinnar sem er stjórnskipunin og staða forsetans! Þá stóru spurningu virðist ekki eiga að ræða né kanna hug þjóðarinnar til hennar. Ástæða þess að yfirleitt var farið af stað með endurskoðun stjórnarskrárinnar eftir hrun var að margir töldu að stjórnskipun ríkisin hefði brugðist í aðdraganda hrunsins og að Alþingi hefði reynst getulaust varðandi þá endurskoðun skrárinnar sem staðið hefur til að Alþingi geri allt frá stofnárinu 1944. Núverandi stjórnarskrá er enda ónákvæm og misvísandi varðandi stjórnskipunina. Þar sem stjórnskipunin og geta stjórnkerfis ríkisins til að stjórna landinu vel er mikilvægasta málefni stjórnarskrárinnar og endurskoðunar hennar hlýtur það einnig að vera mikilvægasta innhald “samræðu” Alþingis við þjóðina og meðal hennar, þegar kemur að atkvæðagreiðslunni og aðdraganda hennar. Ekki er ljóst hvort þjóðin vill breytingar á stjórnkerfinu, það er á þrískiptingu ríkisvaldsins og hlutverki forsetans. Vill þjóðin hafa hér áfram þingbundna ríkisstjórn með valdalitlum forseta eða vill hún breyta til? Vitað er að það er talsverður áhugi á að gera forsetann valdameiri og það er jafnvel skoðun margra að forsetaræði henti okkur betur en þingræði. Við forsetaræði að hætti BNA velur þjóðkjörinn forseti meðráðherra og leiðir framkvæmdavaldið. Ráðherrarnir eru gjarnan valinnkunnir leiðtogar hver á sínu fagsviði. Forsetaræði er reyndar algengara stjórnarfar en þingræði eins og hægt er að kynna sér á Wikipedia. Orðið forsetaræði minnir í fyrstu á orðið einræði en í raun er þetta stjórnarfar lengra komið frá konungbundna einræðinu sem var algengt áður fyrr. Þingræðið miðaði í upphafi við að til staðar var kóngur sem varð smám saman valdalaus. Við forsetaræði er betri aðskilnaður milli framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Þingið sinnir ekki framkvæmdastjórn heldur setur lögin og er mótvægi við forsetann. Við þingræði myndar meirihluti þingmanna ríkisstjórn úr sínum hópi. Í þessu felst að varla koma aðrir til greina í ríkisstjórn en þingmenn. Faglegir stjórnendur koma vart til greina jafnvel þó þeir séu í mörgum tilvikum mun hæfari til að gegna leiðtogastörfum á borð við það sem fjármálaráðherrar og heilbrigðisráðherrar gegna en stjórnmálamenn, vegna reynslu sinnar og menntunar. Annar slæmur vankantur á þingræðinu er að formenn flokka verða sjálfkrafa leiðtogar ríksstjórna, hafa einnig mest áhrif í þinginu. Meirihluti þingsins setur sig varla í andstöðu við sína ríkisstjórn. Afleiðingin er skortur á vel ígrundaðri og sanngjarnri gagnrýni, þöggun og meðvirkni. Betra er að þing og ríkisstjórn takist óhikað á um álitamálin. Gagnrýnendur forsetaræðis halda því fram að stöðug átök séu milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds. En einmitt slík átök kunna að vera mjög mikilvæg um álitamálin til að þau séu rædd og skilgreind áður en ákvarðanir eru teknar. Meðvirkni er óheppilegt stjórnarfar. Átökin milli þings og ríkisstjórnar þurfa að vera hæfilega mikil og sanngjörn. BNA, Frakkland og fleiri lönd sem búa við forsetaræði eru meðal fremstu landa á heimsvísu og það er ekki tilviljun. Minni lönd þurfa ef til vill ekki á snörpu stjórnarfari að halda því þau geta haldið í humátt á eftir forysturíkjunum en samt er gott stjórnarfar að sjálfsögðu mjög mikilvægt öllum framsæknum ríkjum. Tillögur stjórnlagaráðs eru um margt mjög góðar en það hefðu þurft að koma markvissari tillögur um breytingar á stjórnskipuninni. Alþingi getur þokað málum áfram með því að bæta við spurningum til þjóðarinnar um stjórnskipunina og spyrja í þessa veru: Á að byggja hér á forsetaræði eða þingræði? Ef hér verður áfram þingræði hver á þá staða forsetans og forsætrisráðherrans að vera? Á að sameina þessi embætti? Umræða um þessar spurningar og fleiri af þessum meiði er þörf og hún yrði vonandi frjó í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Beint lýðræði á helst við í stóru málunum. Það á að spyrja þjóðina um það sem mestu skiptir fyrir hana en það verður að vanda vel undirbúninginn og fræða þjóðina vel um kostina sem í boði eru áður en til atkvæðagreiðslunnar kemur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband