Mikilvægar ákvarðanir

Fjöldi íslenskra heimila eru í alvarlegum fjárhagsvanda, rúmlega 27.000 einstaklingar á vanskilaskrá og fer fjölgandi. Tugir þúsunda til viðbótar hafa glatað eigin fé í eignum sínum og sjá fram á erfiðar afborganir af verðtryggðum lánum næstu áratugi.

Hvað er til ráða? Hvernig getum við bætt hag heimilanna verulega og þegar fram í sækir bætt lífskjör okkar þannig að þau verði ekki síðri en hjá þeim nágrannaþjóðum sem betur mega sín?

Það er í rauninni aðallega tvennt sem kemur til greina til að bæta hag heimilanna, það er að auka tekjur og lækka útgjöld.

Auknar meðaltekjur heimilanna fást aðeins með aukinni þjóðarframleiðslu. Undanfarin 30 ár höfum við dregist aftur úr nágrannaþjóðum okkar, Norðurlöndunum og Bretlandi, um 0,4% á ári að jafnaði. Þjóðarframleiðslan hjá okkur hefur aukist um 1,4% að meðaltali en hefði þurft að aukast um 1,7% til að halda í við þessar þjóðir.

Hvernig getum við aukið þjóðarframleiðsluna hraðar en verið hefur?

Sjávarútvegur og orkufrekur iðnaður geta ekki vaxið mikið úr þessu. Vöxturinn verður í nýjum útflutnings atvinnugreinum. Eftir 20 ár þurfa þær að standa undir 50% þjóðarframleiðslunnar ef við eigum að halda í við nágrannaþjóðirnar. Ferðaþjónusta stendur nú þegar undir 20%. Hátækniiðnaður svo sem hjá Marel, Össur og Actavis, skapandi starfsemi svo sem hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP og kvikmyndaiðnaður eins og Saga film og Truenorth geta vaxið.

Til þess að svo verði þarf að búa þeim hér gott starfsumhverfi. Mestu skiptir fyrir þau stöðugleiki, traustur gjaldmiðill, hóflegt vaxtastig, hagstætt verðlag og aðgangur að vel menntuðu starfsfólki. Á undanförnum árum hafa flest ofangreind fyrirtæki vaxið meira erlendis en hér vegna þess að umhverfið hér hefur ekki verið hagfellt. Þessu þarf að breyta og það tekst vart án ESB og Evrunnar enda fylgja forráðamenn flestallra þessara fyrirtækja inngöngu í Evrópusambandið. Ef bæta á starfsumhverfi fyrir ný fyrirtæki sem bera þurfa upp hagvöxtinn gengur ekki að draga ESB umsóknina til baka.

Þá er það hin hliðin, lækkun útgjalda heimila. Hvernig má lækka þau að gagni?

Við lítum öll í eigin barm þegar herðir að og getum flest lækkað okkar daglegu útgjöld nokkuð og höfum verið að gera það. Sum útgjöld er reyndar ekki hægt að lækka að ráði. Vonir margra standa til að hluti af hækkun verðtryggðra lána frá hruni verði felldur niður. Hvort sem það verður eða ekki þurfa önnur útgjöld heimilanna að lækka. Síðar þegar afkoma ríkissjóðs hefur skánað verður hægt að lækka skatta og það mun örva hagvöxt.

SvinSú útgjaldalækkun heimila sem stjórnmálin geta staðið fyrir er að taka á útgjaldaliðum er tengjast landbúnaðinum. Hann er að talsverðu leyti ósjálfbær og þrífst í skjóli innflutningshafta og styrkja, skapar aðeins 1,3% landsframleiðslunnar. Það má stórlækka útgjöld heimilanna með því að opna á innflutning landbúnaðarafurða og minnka styrki til greinarinnar. Þetta myndi lækka útgjöld meðal fjölskyldu í kringum 100 þús. kr. á mánuði vegna lægri skatta, lækkunar matvælaverðs, minni hækkunar vísitölutryggðra lána og lægri vaxta ef Evran verður tekin upp. Þetta yrði mikið átak, sem yrði að undirbúa vel. Meðal þess sem þyrfti að passa upp á er að hafa tiltæka áætlun til að aðstoða bændur sem missa tekjur og sitja uppi með verðminni eignir, að koma undir sig fótunum með nýjum hætti.

Vaxandi ferðaþjónusta býður upp á mörg tækifæri, það þarf víða að taka til hendinni og sjálfsagt að nýta vinnuaflið sem losnar úr læðingi til gagnlegra verka sem koma heildinni til góða. Ef við förum þessa leið, að taka á liðum er tengjast landbúnaðinum, verður samningagerðin við ESB auðveldari en ella og Evran innan seilingar. Það verður þá lítið því til fyrirstöðu að setja aukinn þunga í aðildarumsóknina og bæta með því skilyrði nýju atvinnugreinanna sem verða að vera helsta undirstaða bættra lífskjara í framtíðinni.

Staða okkar er erfið og mun ekki batna nema að við tökum réttar ákvarðanir. Nú er verið að velja fólk á lista stjórnmálaflokkanna. Kjósendur ættu að hafa þetta í huga þegar þeir velja sína fulltrúa.

Grein sem birtist í Mbl. 19.11.12 

Höfundur er í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 24.11.12 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband